Innlent

Margt um manninn á Einni með öllu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum í kvöld eru Amabadama, 200.000 Naglbítar og Úlfur Úlfur.
Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum í kvöld eru Amabadama, 200.000 Naglbítar og Úlfur Úlfur. Linda Ólafsdóttir
Mikið var um að vera á hátíðinni Ein með öllu á Akureyri í gær og fór hátíðin vel fram samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum og lögreglu.

„Smekkfullt var á ráðhústorginu í gær og mikil stemning,“ segir Rúnar Eff Rúnarsson einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. Meðal viðburða í gær var góðgerðarganga starfsmanna Slökkviliðs Akureyrar þar sem þeir söfnuðu pening fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri. Segir Rúnar einnig að tónleikarnir á Ráðhústorginu hafi heppnast einstaklega vel en meðal þeirra sem komu fram voru Aron CanKK Band og Greta Salóme.

„Aðalmálið hjá okkur í dag eru tveir íþróttaviðburðir hérna í Gilinu. Það er svokallað Townhill og Uphill mót Hjólreiðafélags Akureyrar,“ segir Rúnar. Þessir viðburðir eru einstaklega áhorfendavænir að sögn skipuleggjenda. Í keppnunum keppast bestu fjallahjólreiðamenn landsins um að vera sem fljótastir niður kirkjutröppurnar.

Búist er við fjölmenni á Sparitónleikunum í kvöld en tónleikarnir eru stærsti viðburður hátíðarinnar og jafnframt endapunktur hennar. „Það hafa alltaf verið á milli 10 og 25 þúsund manns á tónleikunum. Það kemur alltaf heill hellingur,“ segir Rúnar. Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum eru Amabadama, 200.000 Naglbítar og Úlfur Úlfur. Tónleikunum lýkur svo á flugeldasýningu og smábátadiskói á Pollinum.





Gengið af göflunum - Starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar gengu fyrir Sjúkrahúsi Akureyrar.Linda Ólafsdóttir
Aron Can kom fram á hátíðinni við mikinn fögnuð gesta.
KK mundar gítarinn á Ráðhústorginu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×