Erlent

Stofnandi Wikileaks hverfur af Twitter

Kjartan Kjartansson skrifar
Assange hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í sendráði Ekvador í London í fimm ár. Nú virðist hann kominn í útlegð á Twitter líka.
Assange hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í sendráði Ekvador í London í fimm ár. Nú virðist hann kominn í útlegð á Twitter líka. Vísir/AFP
Opinberri Twitter-síðu Julians Assange, stofnandi uppljóstranavefsins Wikileaks, virðist hafa verið eytt eða henni lokað. Ekki er ljóst hvort að Assange hafi sjálfur eytt síðunni eða hvort að Twitter hafi lokað á hann.

Í frétt CBS-sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að Twitter-síða Wikileaks sé enn uppi en þar er ekki lengur hlekkjað á síðu Assange. Engar niðurstöður komi upp þegar leitað sé að notendanafni hans á Twitter.

Vefsíðan Mashable segir að svo virðist sem að Twitter hafi ekki lokað á Assange heldur hafi síðunni verið eytt. Önnur skilaboð komi upp þegar reynt sé að leita að einstaklingum sem Twitter hefur lokað á eins og Jaydu Fransen, einn leiðtoga bresku öfgasamtakanna Bretlands fyrst.

Assange er umdeildur maður. Hann hefur hýrst í sendiráði Ekvador í London þar sem hann hefur reynt að forðast að vera framseldur til Bandaríkjanna í fimm ár. Hann varð fyrst heimsþekktur þegar Wikileaks birti fjölda sendiráðspósta bandarískra stjórnvalda í samstarfi við fjölmiðla árið 2010. Hann varð í kjölfarið að hetju í augum sumra en útlaga í augum bandarískra stjórnvalda.

Í seinni tíð hefur Assange verið grunaður um að vinna með rússneskum stjórnvöldum, þar á meðal við að birta tölvupósta Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra. Hann hefur einnig kynt undir villtar samsæriskenningar eins og að starfsmaður landsnefndar demókrata hafi verið myrtur vegna þess að hann hafi lekið tölvupóstunum. Engar vísbendingar eru um að sú kenning eigi við rök að styðjast.

Athygli vakti í sumar þegar Assange fór mikinn á Twitter um að brýningar um að Bandaríkjamenn notuðu þar til gerð gleraugu til að fylgjast með almyrkva á sólu væru samsæri hagsmunaaðila um að hagnast á sölu gleraugnanna. Fullyrti hann að óhætt væri að horfa á myrkvann berum augum ef fólk gætti sín bara að líta undan þegar sólin birtist aftur, þvert á ráðleggingar lækna og sérfræðinga.


Tengdar fréttir

Stofnandi Wikileaks sá samsæri í sólmyrkvagleraugum

Julian Assange dreifir undarlegum kenningum um að framleiðendur sólmyrkvagleraugna hafi búið til móðursýki um að hættulegt væri að horfa á sólmyrkva í Bandaríkjunum með berum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×