Erlent

Milljón Víetnama flýr heimili sín undan fellibylnum Tembin

Kjartan Kjartansson skrifar
Tembin hefur valdið usla á Filippseyjum síðustu daga. Fellibylurinn stefnir nú á suðurströnd Víetnam.
Tembin hefur valdið usla á Filippseyjum síðustu daga. Fellibylurinn stefnir nú á suðurströnd Víetnam. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Víetnam undirbúa nú að flytja burt rúmlega milljón manna sem búa á láglendi við suðuströnd landsins áður en fellibylurinn Tembin sem olli mannskaða á Filippseyjum skellur þar á síðar í dag. Fleiri en 230 manns fórust af völdum fellibylsins á Filippseyjum.

Skólum hefur verið lokað í Ho Chi Minh-borg í suðurhluta landsins og yfirvöld hafa skipað sjómönnum að halda kyrru fyrir. Þá reyna yfirvöld að tryggja öryggi olíuborpalla og ráðlagt stjórnendum þeirra að senda starfsmenn heim.

Tembin verður sextándi meiriháttar stormurinn sem skellur á Víetnam á þessu ári. Um 390 manns hafa farist í þeim samkvæmt opinberum tölum, að því er segir í frétt Reuters.

Björgunarsveitir eru enn að reyna að komast að afskekktum svæðum þar sem flóð og aurskriður fylgdu Tembin á Filippseyjum. Fjölda fólks er saknað. Yfirmaður björgunarsveita á von á að tala látinna eigi eftir að rísa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×