Erlent

Louvre safnið fékk 2 milljónum færri gesta í fyrra

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Öryggisgæsla hefur verið stórhert við Louvre safnið eftir hryðjuverkaárásir í borginni.
Öryggisgæsla hefur verið stórhert við Louvre safnið eftir hryðjuverkaárásir í borginni. Vísir/EPA
Gestum Louvre listaverkasafnsins í París fækkaði um 2 milljónir í fyrra. Safnið græddi því tíu milljónum evra minna árið 2016 heldur en árið áður. Forstöðumaður safnsins segir að ótti við hryðjuverk sé um að kenna. Guardian greinir frá.

Jean Luc Martinez, umræddur forstöðumaður segir að „árið hafi verið erfitt“ fyrir flesta ferðamannastaði í borginni og að gestafjöldi hafi farið niður um 15 prósent frá því á árinu 2015 en 9,7 milljón manns heimsóttu safnið. Hann sagðist þrátt fyrir erfiðleikana vera vongóður um að miðasala myndi aukast á ný á nýju ári.

 „Við gerum allt sem við getum til að takast á við þetta. Staðan er alvarleg en ég er rólegur. Við höfum lent í erfiðleikum áður, til að mynda eftir hryðjuverkaárásirnar í september árið 2001, en þá tók það okkur þrjú ár að jafna okkur“ segir Martinez en fjöldi ferðamanna í Frakklandi hefur hríðfallið eftir hryðjuverkaárásir þar undanfarið.

Þá hefur hækkun yfirborðs ánnar Signu ekki hjálpað en safnið neyddist til að loka í nokkra daga í júní vegna hættu á því að vatn flæddi inn í kjallara safnsins.

Að sögn Martinez hafa öryggismál safnsins verið uppfærð til að koma til móts við ferðamenn og eins og hefur komið fram er hann bjartsýnn á nýtt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×