Erlent

Árásarmaðurinn í Flórída ákærður

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Fort Lauderdale flugvelli.
Frá Fort Lauderdale flugvelli. Vísir/EPA
Maðurinn sem myrti fimm manns auk þess að særa sex í skotárás á flugvellinum í Fort Lauderdale í Flórída síðastliðinn föstudag hefur verið ákærður og gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Hinn grunaði, Esteban Santiago hafði áður barist í Íraksstríðinu fyrir bandaríska herinn. Guardian greinir frá.

Santiago hefur verið ákærður fyrir að bera skotvopn sem og að fremja ofbeldisglæp en Santiago var einnig ákærður fyrir manndráp. Talsmaður lögregluyfirvalda sagði að Santiago hefði viðurkennt að hafa skipulagt árásina.

Santiago hafði áður verið sendur í geðrannsókn eftir að hafa gengið inn á skrifstofu bandarísku alríkislögreglunnar, FBI og beðið um hjálp en þar gerðu yfirvöld skotvopn hans upptæk, en henni var skilað til hans aftur. Ekki er ljóst hvort að Santiago notaði sömu byssu í árásinni á föstudag.

Yfirvöld standa nú að frekari rannsókn á málinu og hafa 175 manns verið yfirheyrðir, þar á meðal maður sem talinn er möguleiki á að hafi aðstoðað Santiago, en sá var áður með honum í hernum. Yfirvöld telja ekki víst að hægt sé að flokka árásina sem hryðjuverkaárás.

Að sögn rannsakenda flaug Santiago frá Alaska þaðan sem hann bjó til Fort Lauderdale með millilendingu í Minneapolis. Hann notaði löglega hálf sjálvirka skammbyssu í árásinni en byssuna gat hann skráð með sér í flugið með löglegum hætti.

Flugvöllurinn hefur nú aftur hafið starfsemi með nær eðlilegum hætti, en flugmálayfirvöld reyna nú að koma um 20 þúsund töskum sem voru skildar eftir í árásinni aftur til síns heima en flugstöðin var rýmd í kjölfar árásarinnar og farþegar færðir í öruggt skjól.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×