Erlent

Lögregla skilaði byssu til árásarmannsins í Flórida

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá flugvellinum í Fort Lauderdale í gær.
Frá flugvellinum í Fort Lauderdale í gær. Vísir/EPA
Lögregluyfirvöld í Alaska segja að þau hafi skilað byssu sem var í eigu árásarmannsins sem varð fimm að bana í skotáras í Flórída í gær aftur til mannsins eftir rannsókn á síðast ári. BBC greinir frá.

Maðurinn, hinn 26 ára gamli Esteban Santiago, var sendur í geðrannsókn á síðasta ári eftir að hafa gengið inn á skrifstofu bandarísku alríkislögreglunnar FBI með hlaðið skothylki í fórum sínum.

Byssa fannst í bíl Santiago og var hún gerð upptæk á meðan geðrannsóknin var framkvæmd. Þar lét hann þau orð falla að bandarísk yfirvöld stjórnuðu hugsunum hans og hefðu látið hann horfa á myndbönd með íslömskum öfgamönnum.

Byssunni var síðar skilað til Santiago eftir að rannsókn leiddi í ljós að hann hafði engan glæp framið.

Yfirvöld í Alaska segja óvíst hvort að byssa sem um ræðir hafi verið notuð í skotárásinni í gær sem framin var á flugvellinum í Fort Lauderdale. Kostaði hún fimm manns lífið.

Santiago er sagður hafa hafið skothríð við farangurshlið en sjónarvottar segja hann hafa gengið þöglan um á meðan hann skaut á fólk sem reyndi að flýja. Er hann nú í haldi lögreglu.


Tengdar fréttir

Skotárás í Flórída

Þónokkrir eru særðir eftir skotárás á flugvellinum í Fort Lauderdale í Flórída í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×