Erlent

Skotárásin í Flórída: Lögreglan með einn í haldi sem sagði yfirvöld stjórna hugsunum sínum

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá flugvellinum í Fort Lauderdale í gær.
Frá flugvellinum í Fort Lauderdale í gær. Vísir/EPA
Lögreglan í Flórída hefur yfirheyrt mann sem grunaður er um árás á flugvellinum í Fort Lauderdale sem kostaði fimm mann lífið.

Sá sem er í haldi lögreglu er hinn 26 ára gamli Esteban Santiago sem barðist í Íraksstríðinu fyrir Bandaríkjaher.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC segir fjölmiðla vestanhafs hafa greint frá því að maðurinn hafi mögulega átt við geðraskanir að stríða. Hann hafði að sögn látið þau orð falla að bandarísk yfirvöld stjórnuðu hugsunum hans og hefðu látið hann horfa á myndbönd með íslömskum öfgamönnum.

Árásarmaðurinn hóf skothríð við farangurshlið en sjónarvottar segja hann hafa gengið þöglan um á meðan hann skaut á fólk sem reyndi að flýja.

Hann gaf sig fram við lögreglu þegar hann hafði klárað skotfæri sín.

Árásarmaðurinn var klæddur í Star Wars-bol og komið til flugvallarins í Fort Lauderdale frá Alaska. Hann er sagður hafa tekið með óhlaðna byssu og skotfæri í farangri sínum. Þegar hann kom á flugvöllinn í Fort Lauderdale náði hann í tösku sína, fór inn á baðherbergi þar sem hann hlóð byssuna og hóf svo skothríð.

„Við munum rannsaka alla þætti málsins til að finna út hvert tilefni þessarar árásar var,“ hefur BBC eftir George Piro hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI. Piro sagði að ekki væri búið að útiloka að árásin væri hryðjuverk.

Talið er að hinn grunaði, Esteban Santiago, verði leiddur fyrir dómara á mánudag.

Hann var hluti af varaherliði Alaska-ríkis og barðist í Íraksstríðinu frá apríl 2010 til febrúar 2011. Hann var leystur frá störfum í ágúst í fyrra vegna ófullnægjandi frammistöðu.


Tengdar fréttir

Skotárás í Flórída

Þónokkrir eru særðir eftir skotárás á flugvellinum í Fort Lauderdale í Flórída í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×