Erlent

Netanyahu kallar eftir náðun ísraelska hermannsins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/AFP
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael hefur kallað eftir því að ísraelski hermaðurinn verði náðaður en hann var fundinn sekur um manndráp fyrir að skjóta særðan mann í höfuðið. BBC greinir frá.

Hermaðurinn, hinn 20 ára gamli Elor Azaria var í dag sakfelldur af herrétti en hann skaut hinn palestínska Abdel Fattah al-Sharif í höfuðið sem hafði fimmtán mínútum áður reynt að stinga annan ísraelskan hermann. Útskýringar Azaria voru ekki taldar halda vatni.

Viðbrögð við dómnum hafa verið blendin í Ísrael og sundrað þjóðinni, en mótmælagöngur hafa verið haldnar til stuðnings hermanninum á meðan æðstu ráðamenn innan ísraelska hersins sverja hegðun hans af sér og segja hana ekki endurspegla gildi hersins.

Netanyahu hefur nú tjáð sig um dóminn og segist hann styðja þá tillögu að Azaria verði náðaður. „Þetta er erfiður og sársaukafullur dagur fyrir okkur öll og fyrst og fremst fyrir Azaria og fjölskylduna hans, hermenn og foreldra hermanna okkar, þar á meðal mig“ sagði hann.

Aðrir aðilar ríkisstjórnarinnar þar í landi hafa tjáð sig og verið á sömu línu og Netanyahu en stjórnarandstæðingar telja hins vegar að dómnum ætti að vera framfylgt.

Varnarmálaráðherra Ísrael hafði áður tjáð sig um niðurstöðu dómsins og sagt að hún væri ,,erfið'' og að hann væri henni ósammála þrátt fyrir að hann teldi að hana þyrfti að virða.

Enn á eftir að ákvarða hvernig hermaðurinn tekur út refsingu sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×