Erlent

Handtóku félaga árásarmannsins í Berlín

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tólf létust og tugir særðust þegar flutningabíl var ekið inn í jólamarkað á Breitscheidplatz í Berlín í síðasta mánuði.
Tólf létust og tugir særðust þegar flutningabíl var ekið inn í jólamarkað á Breitscheidplatz í Berlín í síðasta mánuði. Vísir/aFP
Lögreglan í Berlín hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa þekkt Anis Amri, manninn á bakvið árásina í Berlín í desember. Hann er talinn hafa snætt með honum kvöldverð kvöldið fyrir árásina. BBC greinir frá.

Árásin átti sér stað þann 19. desember síðastliðinn en Anis Amri skaut vörubílstjórann Lukasz Urban, rændi vörubílnum hans og keyrði honum á saklausa vegfarendur sem voru á jólamarkaði í nærliggjandi hverfi og myrti tólf manns. Þaðan flúði hann til Mílanóborgar á Ítalíu þar sem lögreglan felldi hann eftir skotbardaga.

Rannsakendur telja að viðkomandi, sem er 26 ára gamall hafi þekkt Amri síðan í lok ársins 2015 og að hann hafi hitt hann á veitingastað og snætt með honum kvöldverð, kvöldið fyrir árásina þann 19.desember. Þeir hafi sést í mjög áköfum samræðum á veitingastaðnum.

Fyrrum meðleigjandi árásarmannsins hefur einnig verið rannsakaður en talið er að Amri hafi reynt að heyra í honum tvisvar á deginum sem árásin átti sér stað en ekki er ljóst hvort þeir hafi talað saman.

Byssa fannst á Amri eftir að hann hafði verið felldur í Mílanó og telur lögreglan nú ljóst að um sömu byssu er að ræða og hann notaði til að myrða Lukasz Urban.

Lögregla vinnur hörðum höndum að því að skýra atburðarrásina og þá sérstaklega tímann þar sem Amri ferðaðist til Ítalíu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×