Skoðun

Til ábyrgðarmanna

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Embætti umboðsmanns skuldara tekur undir umfjöllun Arnars Inga Ingvarssonar lögmanns um ábyrgðarskuldbindingar, í aðsendri grein hans í Fréttablaðinu þann 10. janúar sl. Líkt og rakið er í greininni er mikilvægt fyrir ábyrgðarmenn að kanna réttarstöðu sína, þegar reynir á gildi ábyrgðarskuldbindinga. Umboðsmaður skuldara hóf það verkefni árið 2011, að veita þá þjónustu að aðstoða einstaklinga við að kanna gildi ábyrgðarskuldbindinga. Framangreind þjónusta fólst í að kanna hvort gætt hafi verið að gildandi reglum þegar til ábyrgðarinnar var stofnað. Yfir 1.300 erindi bárust embættinu, bæði frá ábyrgðarmönnum þeirra skuldara sem sótt höfðu um úrræði hjá embættinu, sem og frá ábyrgðarmönnum ótengdum úrræðum embættisins. Niðurstaða könnunar í um 1.300 málum var sú að telja mátti ábyrgðarskuldbindingar ógildar í þriðjungi málanna.

Þetta viðamikla verkefni embættisins leiddi til stefnumótunar hjá hlutaðeigandi fjármálastofnunum við könnun á gildi ábyrgðarskuldbindinga. Verkefnið þróaðist á þann veg að ábyrgðarmenn áttu með auðveldum hætti að geta leitað til fjármálastofnunar, til að fá gögn og upplýsingar um sannanlegt gildi ábyrgðarinnar. Í dag leiðbeinir embættið ábyrgðarmönnum, sem vilja kanna hvort gætt hafi verið að gildandi reglum við stofnun ábyrgðar, að leita í útibú viðkomandi fjármálafyrirtækis og óska eftir tilteknum gögnum og afstöðu til ábyrgðarinnar. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu embættisins, s.s. um þau gögn sem ber að afla og til hvaða reglna ber að líta við könnun á gildi ábyrgðar, sbr. www.ums.is. Vakin skal athygli á því að reglur um ábyrgðir samkvæmt samkomulagi frá árinu 1998 og 2001 gilda ekki um lífeyrissjóði og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ábyrgðarmenn eru jafnframt hvattir til að kanna hvort ábyrgðarskuldbinding sé fyrnd.

Ef aðalskuldari sækir um greiðsluaðlögun og kemst í svokallað greiðsluskjól við samþykkt umsóknar, þá er kröfuhöfum óheimilt að innheimta kröfur sínar á hendur ábyrgðarmönnum á meðan greiðsluskjól varir, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga. Embættið vill þó vekja athygli á því að ábyrgðarmönnum er heimilt að greiða, af sjálfsdáðum, ábyrgðarskuldbindingar sínar meðan greiðsluskjól aðalskuldara varir, kjósi þeir það. Ábyrgðarmaður kann að sjá hag sinn í því til að koma í veg fyrir hækkun skuldarinnar í greiðsluskjóli. Þetta getur átt við í þeim tilvikum þegar ábyrgð telst gild, ófyrnd og staðfest er að ábyrgð verði virk þegar greiðsluskjóli lýkur.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×