Erlent

Bjó í meira en ár í milljón dollara villu með rotnandi lík systur sinnar á eld­hús­gólfinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Húsið sem systurnar bjuggu í.
Húsið sem systurnar bjuggu í. mynd/brookline assesor's office
Lík 67 ára gamallar konu fannst í seinasta mánuði í milljón dollara villu í bænum Brookline í Bandaríkjunum, skammt frá Boston. Talið er að líkið hafi verið í húsinu í meira en ár en það fannst á eldhúsgólfinu. Konan bjó í villunni með systur sinni sem hafði þá búið þar með líkinu allt frá því að konan lést.

Samkvæmt umfjöllun Washington Post um málið er ekki talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað en systurnar, Lynda Waldman, 74 ára, og Hope Wheaton, héldu sig mikið út af fyrir sig. Þær umgengust þó nágranna og ættingja en fyrir um það bil einu og hálfu ári hætti að sjást mikið til þeirra og þá sérstaklega Wheaton, sem hefur að öllum líkindum látist sumarið 2015.

„Við vorum alltaf að spyrja hvar hún væri en hún svaraði ekki,“ er haft eftir Harriet Allen, nágranna og vinkonu systranna.

Þá hafði lögreglan komið oftar en einu sinni til að athuga með systurnar eftir ábendingar frá nágrönnum en Waldman hafði alltaf afþakkað alla aðstoð. Það var því ekki fyrr en í seinasta mánuði sem í ljós kom að önnur systirin væri látin.

Ættingi systranna hafði þá komið til að athuga hvort ekki væri í lagi með lagnirnar í húsinu vegna mikils kulda. Þegar hann kom inn í eldhúsið í húsinu sá hann rotnandi lík Wheaton liggja á gólfinu.

Eins og áður segir er talið að hún hafi látist sumarið 2015 og hefur Waldman, systir hennar, að öllum líkindum búið í húsinu með líkinu allan þann tíma. Hún sagði lögreglunni síðar að Wheaton hefði stundum orðið veik, dottið og ekki getað staðið upp.

Hún hefði þá gefið henni vatn og frostpinna þar til henni leið betur. Í þetta skiptið hefði henni hins vegar ekki liðið neitt betur og þá vissi Waldman ekki hvað hún átti að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×