Skoðun

Utanspítalaþjónusta - taka 2

Njáll Pálsson skrifar
Það er góður siður í upphafi nýs árs að gera upp hið gamla og leggja fyrir sig hvernig haga skuli málum á því nýja. Í ársbyrjun nýliðins árs birtist grein eftir mig hér á Vísi þar sem ég reyndi að gera grein fyrir utanspítalaþjónustu á Íslandi og hvernig mætti efla hana. Jafnframt óskaði ég þess að árið 2016 myndi marka tímamót hvað þennan málaflokk varðaði.

Það er því við hæfi á þessum tímamótum að taka stöðuna. Æ fleirum er nú að verða það ljóst í umræðunni um eflingu heilbrigðiskerfisins að horfa verður til utanspítalaþjónustunnar. Margoft hefur verið bent á það bæði í ræðu og riti. Fyrir liggja skýrslur um málefnið með tillögum að úrbótum. En hvernig gengur það.

Það gengur hægt, allt of hægt, hjólin í stjórnkerfinu okkar snúast hægt. Þó ber þess að geta að þeir aðilar sem ábyrgð bera og hafa aðkomu að málaflokknum vinna að úrbótum eftir bestu getu, þrátt fyrir þröngt rekstrarumhverfi. Ég ætla að sleppa því að nota orðið „fjársvelti” líkt og tamt er í umræðunni. Ég ætla engum það að vilja fjársvelta utanspítalaþjónustuna en augljóst er að þessi þjónusta þolir mun veglegri fjármögnun en hingað til hefur verið boðið upp á, það er nauðsynlegt. Annars komumst við ekki á þann stað sem við viljum vera á samanborið við aðrar þjóðir. Það er ekki lengur hægt að una við lágmarksfjármögnun einnar af grunnstoðum heilbrigðis- og viðbragðsþjónustu. Við þurfum líka skipulag og framtíðarsýn, eftir því hefur verið kallað og skynja ég vilja til þess.

Eitt er það sem ríður á að standa vörð um en það er sálarleg velferð þeirra sem á ögurstundu sinna og aðstoða landann og þeim er okkur heim sækja. Sálrænn stuðningur fyrir viðbragðsaðila er mikilvægari en orð fá lýst sem og sérstakur félagastuðningur. Sálrænum stuðningi er sinnt af fagaðilum og félagastuðningnum er sinnt af viðbragðsaðilum með sérstaka þjálfun og fræðslu í málefninu.

Viðbragðsaðilar sem sinna sjúkum og særðum, lækna og líkna, gæta laga, öryggis og réttar, leita og bjarga eða svara kalli og boða bjargir verða að hafa öruggt aðgengi að þessum bjargráðum. Þessi vandasömu störf taka stundum meiri toll en sést og uppsöfnuð streita ógnar andlegri heilsu og velferð. Það er líka ekki einungis sálartetur viðkomandi viðbragðsaðila sem er í húfi, fjölskylda, vandamenn og vinir eiga sitt undir að viðkomandi gangi heill frá erfiðu verkefni, að ekki sé nú talað um þá sem reiða sig á þjónustuna!

Það er því ljúft að geta þess að í nóvemberbyrjun nýliðins árs var haldin ráðstefna hér á Íslandi varðandi sálrænan stuðning fyrir viðbragðsaðila. Það sem er enn ljúfara er að þessi ráðstefna var skipulögð og haldin af fulltrúum allra viðbragðsaðila á Íslandi ásamt Sálfræðingunum Lynghálsi og Háskólanum í Reykjavík. Einir virtustu sérfræðingar heims í bæði félaga og sálrænum stuðningi héldu erindi á ráðstefnunni sem og í málstofum henni tengdri. Óeigingjarnt hugsjónastarf hafði þegar verið unnið í tímanna rás varðandi þessi málefni áfallahjálpar og var þessi viðburður mikilvægt framhald þess og gaf upphafstón að enn frekari eflingu á þessu sviði með aðkomu allra viðbragðsaðila. Allt frá neyðarsímsvörun að skurðarborði, ef svo má segja!

Fjöregg utanspítalaþjónustunnar er menntun og þjálfun. Lengi vel hafa sjúkraflutningamenn þurft að sætta sig við stöðnun hvað þann þátt varðar. Nú er unnið að uppfærslu og eflingu menntunar íslenskra sjúkraflutningamanna. Sú vinna hefur gengið hægt en miðar nú áfram í rétta átt. Þeir aðilar sem vinna þá vinnu undir stjórn skólastjóra sjúkraflutningaskólans eiga heiður skilið fyrir fórnfýsi og faglega nálgun. Jafnframt eru að opnast spennandi leiðir hvað framhaldsnám varðar og þá í bráðatæknamenntun (paramedic). Þar gegnir stóru hlutverki vel þróað fjarnámsumhverfi þ.a. nemendur geta tekið bóklegan hluta námsins heima og þannig einskorðað viðveru erlendis aðeins við starfsþjálfun og verknám, sem erfitt er að sjá fyrir sér að hægt sé að veita hér heima með tilliti til sjúklinga- og tilfellafjölda.

Sú reynsla sem hægt er að sækja í erlendri stórborg er ekki síður dýrmæt en bóknámið.  Nú þegar eru nokkrir íslenskir sjúkraflutningamenn að fóta sig á þessari braut m.a. í bandarísku borginni Boston. Það er vel og verður gaman að sjá hvort þessi nýja leið muni veita fleirum aðgengi að þessu mikilvæga námi. Bráðatæknanám er á háskólastigi en ekki kennt hérlendis og höfum við fylgt bandarísku kerfi hvað menntun sjúkraflutningamanna varðar með góðum árangri, langt og farsælt samstarf við Center For Emergency Medicine í University of Pittsburgh í Bandaríkjunum ber þess vitni.

Mjög mikilvægt er fyrir okkur að viðhalda góðu alþjóðlegu samstarfi og tengingum. Að því skal unnið enn frekar. Ekki má gleyma þeim mikilvæga þætti sem endurmenntun og viðhaldsþjálfun er. Nauðsynlegt er að gera úrbætur hvað það varðar fyrir þá sem starfa í utanspítalaþjónustu. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stendur nú fyrir söfnun á fé til kaupa á sérstökum kennslu- og þjálfunarbíl fyrir hermiþjálfun. Hermiþjálfun er fyrir löngu búin að sanna mikilvægt gildi sitt í endurmenntun og viðhaldsþjálfun heilbrigðisstarfsfólks. Með slíkum bíl væri hægt að sækja heim í hérað sjúkraflutningamenn og aðra þá sem koma að utanspítalaþjónustu og bjóða upp á viðhaldsþjálfun og endurmenntun. Þann þátt er ekki eingöngu hægt að leysa með góðum internettengingum og góðu fjarnámi.

Sjá mætti fyrir sér að reyndir leiðbeinendur starfandi í utanspítalaþjónustu tækju að sér þessa þjálfun og gætu þannig jafnframt miðlað reynslu, þekkingu og því sem nýjast er í bransanum hverju sinni til allra. Um byltingu yrði að ræða hvað þetta varðar.

„Þyrlan er farin í loftið”

Þessi orð eru íslenskum sjúkraflutningamönnum og öðrum viðbragðsaðilum í íslenskri neyðarþjónustu vel kunn. Þau heyrast gjarnan í fjarskiptum við Neyðarlínuna eftir að íslenskir viðbragðsaðilar úti á vettvangi hafa óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslu Íslands við annað hvort leit og björgun eða flutning á slösuðu og bráðveiku fólki. Öflugt sjúkraflug hvort sem um er að ræða með flugvélum eða þyrlum er órjúfanlegur hluti að góðri utanspítalaþjónustu. Í áranna rás hefur sjúkraflugsþjónustu verið sinnt á Íslandi með miklum sóma og fagmennsku. Rætt hefur þó verið hvort ekki mætti bæta í þyrluflóru Íslendinga sérútbúinni sjúkraþyrlu til viðbótar við stóru björgunarþyrlurnar. Það myndi fara vel á því og myndi þá skapast færi á setja á stofn svokallaða HEMS sjúkraþyrluþjónustu eða Helicopter Emergency Medical Service. Þetta hefur gefist vel erlendis þar sem sérhæfð bráðateymi manna slíkar þyrlur með bundinni staðarvakt. Lengi hefur verið rætt um þetta og er nú fyrir alvöru verið að skoða þennan möguleika. Leiðinlegt er þó að sú vinna skuli fara fram í skugga þungra varnaðarorða forstjóra Landhelgisgæslu Íslands varðandi ónæga fjármögnun til starfssemi þeirrar sem hann ber ábyrgð á.  Auðvitað þurfum við öfluga landhelgisgæslu með fullri fjármögnun til að sinna sínum lögbundnu hlutverkum, líkt og slökkvilið og lögregla t.a.m. Óþolandi er naumskömmtun fjármagns til slíkra aðila. Slíkt umhverfi er hættulegt og getur haft hamlandi áhrif á nauðsynlega faglega framþróun í neyðarþjónustu líkt og unnið er að með hugmyndum um sérstaka sjúkraþyrlu.

Að endingu

Við þurfum skýra framtíðarsýn í utanspítalaþjónustu á Íslandi. Við þurfum að viðhalda öflugu alþjóðlegu samstarfi ásamt sterkri innviðauppbyggingu neyðar-  og viðbragðsþjónustu hér heima í takt við faglegar nýjungar, studdar af virtum rannsóknum og reynslu annarra þjóða. Við verðum að tryggja öflugan félaga- og sálrænan stuðning fyrir viðbragðsaðila á Íslandi. Við þurfum að uppfæra vinnuferla og stöðluð fyrirmæli varðandi inngrip í sjúklingameðferð. Við þurfum að koma á fót langþráðri rafrænni skráningu í sjúkraflutningum. Við þurfum að tryggja öfluga menntun, endurmenntun og viðhaldsþjálfun íslenskra sjúkraflutningamanna. Allir þessir þættir lúta svo að einum og sama þættinum sem er sjúklingaöryggi. Íslenskum sjúkraflutningamönnum er líkt og öðru heilbrigðisstarfsfólki mjög umhugað um þann mikilvæga þátt. Megi því nýtt ár 2017 marka enn frekari skil í eflingu utanspítalaþjónustu á Íslandi, góðar stundir.

Njáll Pálsson, formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.


Tengdar fréttir

Menntun sjúkra­flutninga­manna

Nokkuð hefur verið rætt um utanspítalaþjónustu og hve mikilvægt það er að efla hana. Það er stórt mál og áríðandi.

Utanspítalaþjónusta

Nú hefur það verið opinberlega viðurkennt að allir Íslendingar og þeir sem okkur heim sækja skuli eiga kost á sem bestu heilbrigðisþjónustu hverju sinni, hvar sem í sveit eru staddir.




Skoðun

Sjá meira


×