Erlent

Þrumusnjókoma herjar á Bretlandseyjar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Snjóstormurinn gengur nú yfir allar Bretlandseyjar og hafa íbúar verið fluttir á brott sumsstaðar vegna flóðahættu.
Snjóstormurinn gengur nú yfir allar Bretlandseyjar og hafa íbúar verið fluttir á brott sumsstaðar vegna flóðahættu. Vísir/Getty
Mikill hríðarbylur gengur nú yfir Bretlandseyjar og hefur snjóað víðast hvar þar í landi, meðal annars í höfuðborginni London. Fjöldi flugferða hefur verið aflýst eða seinkað sökum þessa og íbúar við strendur í austurhluta landsins yfirgáfu sumir hverjir heimili sín vegna hættu á flóðum.

Veðurfræðingar höfðu í dag varað fólk við veðrinu en stórhríðin sem gengur  yfir eyjarnar í nótt ber heitið „thundersnow“ eða „þrumusnjókoma“ en það þýðir einfaldlega að um er að ræða þrumur og eldingar í bland við mikla snjókomu. Veðurfyrirbrigðið er afar sjaldgæft og hefur myllumerkið #thundersnow þar sem Bretar ræða fyrirbrigðið orðið mjög vinsælt á samfélagsmiðlum.

Umhverfisstofnun Bretlands hefur gefið út flóðaviðvörun til íbúa í bæjum við strandlengjuna en yfirvöld hafa sent hundrað hermenn til austurhluta landsins sem er mjög láglendur til að aðstoða við flutning þrjú þúsund íbúa sem þar búa en yfirgnæfandi líkur eru taldar á mannskæðum flóðum í þeim hluta landsins í nótt og fyrri hluta morgundagsins.

Veðrið hefur haft mikil áhrif víðast hvar en fimmtán grunnskólum var lokað í Skotlandi í dag vegna snjókomunnar og öllum flugferðum hefur verið aflýst eða seinkað á flugvöllunum Gatwick og Heathrow í London. Búist er við að snjódýpt geti orðið allt að 10 til 20 sentímetra í borginni eftir storminn í nótt. Íbúum borgarinnar er ráðlagt að halda sig innandyra í nótt á meðan bylurinn gengur yfir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×