Skoðun

Hvað segir þú skíthæll?

Daníel Þórarinsson skrifar
Það er eitt af einkennum þeirra sem stunda einelti að þeir kannast ekki við að ástunda það og finnst ásakanir um slíkt út í hött. Það er þannig með RÚV, stofnunin kannast ekki við að hafa lagt Sigmund Davíð Gunnlaugsson í einelti. Þó vita allir sem vilja vita að það hófst löngu áður en hin svokölluðu Panamaskjöl komu til sögunnar. Mörgum er væntanlega í fersku minni viðtal sem Sigmar Guðmundsson tók við Sigmund fyrir kosningarnar 2013 og síspurði sömu spurningarinnar þrátt fyrir að Sigmundur hefði jafn oft gefið skýr svör við henni. Í grein sem Sigmundur skrifaði í Mbl. nýlega rifjar hann upp ýmis samskipti við fréttafólk RÚV. Þar kemur m.a. fram að hann hafi fengið skilaboð um að hringja í fréttamann á Útvarpinu til að svara spurningum um Icesave-málið. Hann hringdi og þegar fréttamaðurinn svaraði heilsaði hann með því að segja: „Hvað segir þú skíthæll?“

Einelti fréttastofu RÚV á Sigmund Davíð hafði staðið yfir í mörg ár þegar hún tók þátt í lymskulegri aðför að forsætisráðherranum með viðtali í ráðherrabústaðnum og hefur ekki borið kinnroða yfir því eða þeirri staðreynd að láta fórnarlambið útvega aftökustaðinn. Það sem eftir stendur af því illvirki er að Sigmundur Davíð höndlaði viðtalið í Kastljósi hörmulega illa og hefur goldið fyrir með embætti og æru en hefur þó ekki verið sakaður um neitt saknæmt. Málið er hvergi til umfjöllunar nema hjá RÚV, sem nýtir hvert tækifæri til að rifja það upp í þeim eina tilgangi að berja enn frekar á Sigmundi.

Skemmst er að minnast viðtals sem fréttamaður RÚV á Norðurlandi, Sunna Valgerðardóttir, óskaði eftir þegar haldið var upp á 100 ára afmæli flokksins. Hún hafði hins vegar engan áhuga á þessu merka afmæli elsta stjórnmálaflokks landsins heldur var tilgangurinn sá einn að berja meira á Sigmundi Davíð. Fréttastofu RÚV dugir ekki að fella manninn heldur sparkar í hann liggjandi hvenær sem tækifæri gefst.

Mér finnst framkoma fréttastofunnar vera henni til skammar, hvað finnst þér?



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×