Erlent

Fótboltabulla dæmd í tíu ára fangelsi: Reyndi að hrinda meintum Rússa fyrir lest

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Áhangendur enska landsliðsins fagna á EM 2016.
Áhangendur enska landsliðsins fagna á EM 2016.
Bresk fótboltabulla hefur verið dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að hafa hrint pólskum verkamanni niður af brautarpalli og á lestarspor á neðanjarðarlestarstöð í Lundúnum. The Independent greinir frá

Sjónarvottar aðstoðuðu Póverjann við að komast upp á brautarpallinn og slapp hann því með skrekkinn. Lestin kom 34 sekúndum síðar.

Fótboltabullan heitir Christopher Cole og er 32 ára gamall Breti. Atvikið átti sér stað þann 9. júní á síðasta ári en EM í fótbolta var þá í hámæli.

Cole var æfur út í stuðningsmenn rússneska landsliðsins en hann taldi hegðun þeirra til skammar. Í kjölfarið lenti hann upp á kant við Pólverjann, sem hann taldi ranglega vera Rússa.

Atvikið náðist á myndband en þar sést Cole hrinda Pólverjanum af offorsi á teinana. Í kjölfarið sést hvernig hópur manna kemur fórnarlambinu til aðstoðar en hann slasaðist nokkuð við fallið.

Pólski verkamaðurinn hafði verið á leið heim til sín frá vinnu og sat í lest með heyrnartól á höfðinu þegar Cole byrjaði að áreita hann.

Myndband sem náðist af atvikinu má sjá hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×