Erlent

Heimta að fá hermenn framselda

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tyrknesku hermennirnir í lögreglufylgd við Hæstarétt Grikklands í Aþenu.
Tyrknesku hermennirnir í lögreglufylgd við Hæstarétt Grikklands í Aþenu. vísir/epa
Tyrkneskir ráðamenn eru afar ósáttir við Hæstarétt Grikklands, sem í vikunni kvað upp þann úrskurð að átta tyrkenskir hermenn verði ekki framseldir frá Grikklandi til Tyrklands.

Hermennirnir flúðu með þyrlu til Grikklands eftir að valdaránstilraun í Tyrklandi fór út um þúfur síðastliðið sumar.

Hluti tyrkneska hersins tók þátt í valdaránstilrauninni, en hermennirnir átta segjast ekki hafa átt þar neinn hlut að máli. Þeir óttist hins vegar um líf sitt verði þeir framseldir til Tyrklands.

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir úrskurð gríska dómstólsins vera pólitískan. Hann krefst þess að málið verði aftur tekið til skoðunar hjá grískum dómstólum.

Hann segir samning Tyrkja við Evrópusambandið í hættu, verði hermennirnir ekki framseldir. Samningurinn snýst um það að Tyrkir taki aftur við flóttafólki, sem fór frá Tyrklandi til Grikklands, gegn fjárhagsaðstoð og öðru frá Evrópusambandinu.

„Við erum að skoða hvað við getum gert,“ sagði hann, „og þar á meðal kemur til greina að rifta samningnum við Grikkland.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×