Erlent

Gabriel tekur við embætti sem utanríkisráðherra Þýskalands

atli ísleifsson skrifar
Frank-Walter Steinmeier, Angela Merkel, Brigitte Zypries, Joachim Gauck og Sigmar Gabriel í morgun.
Frank-Walter Steinmeier, Angela Merkel, Brigitte Zypries, Joachim Gauck og Sigmar Gabriel í morgun. Vísir/AFP
Sigmar Gabriel, varakanslari og efnahagsmálaráðherra Þýskalands, hefur nú formlega tekið við embætti sem utanríkisráðherra landsins.

Frá þessu greinir Spiegel en athöfnin átti sér stað í forsetahöllinni Bellevue í Berlín í morgun.

Gabriel tekur við embættinu af Frank-Walter Steinmeier en fullvíst er talið að Steinmeier verði kjörinn forseti Þýskalands þann 12. febrúar næstkomandi.

Steinmeier mun þá taka við embætti af Joachim Gauck sem greindi frá því í sumar að hann hugðist ekki bjóða sig fram til að sitja annað embætti í stóli forseta.

Kjörnir fulltrúa velja forseta landsins, en stjórnarflokkarnir tveir, Kristilegir demókratar og Jafnaðarmannaflokkurinn, sammældust um það í haust að tilnefna Steinmeier.

Brigitte Zypries hefur tekið við embætti efnahagsmálaráðherra af Gabriel, en Zypries gegndi embætti dómsmálaráðherra á árunum 2002 til 2009.

Gabriel er leiðtogi þýska Jafnaðarmannaflokksins og greindi frá því fyrr í vikunni að hann hugðist ekki sækjast eftir að verða kanslaraefni flokksins í þingkosningunum sem fram fara 24. september.

Þess í stað lagði hann til að Martin Schulz, fyrrverandi forseti Evrópuþingsins, yrði valinn og mun hann kljást við Angelu Merkel, leiðtoga Kristilegra demókrata og kanslara, um kanslaraembættið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×