Skoðun

Sköpum örugga borg!

Inga Dóra Pétursdóttir skrifar
Í kjölfar hvarfs Birnu Brjánsdóttur hafa konur stigið fram og lýst þeim veruleika sem þær búa við hér á landi. Þeim ótta og óöryggi sem þær finna fyrir á götum úti og hvernig þær axla ábyrgð á mögulegu ofbeldi með því að forðast augnsamband, velja ákveðnar götur fram yfir aðrar, halda á lykli milli fingra sinna í annarri hendi og símanum í hinni með 112 á hraðvali þegar þær ferðast um götur borgarinnar að kvöld- og næturlagi. Þetta gera konur og stelpur í sjálfsbjargarviðleitni af ótta við mögulega árás eða ofbeldi.

Ofbeldi gegn konum og stelpum er vandamál um allan heim – engu samfélagi hefur tekist að uppræta kynbundið ofbeldi. Reykjavík er hluti af alþjóðlegu verkefni UN Women sem ber heitið Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative).

Borgaryfirvöld í 22 löndum hafa heitið því að gera borg sína öruggari og er markmiðið að skapa konum, stúlkum og börnum öruggt líf í borgum án ótta við ofbeldi. Verkefnið er unnið í samstarfi við borgaryfirvöld og frjáls félagasamtök á hverjum stað.

Reykjavík er ein þessara borga og skipar sér þar með í röð borga á borð við Kigali í Rúanda, Port Moresby í Papúa Nýju Gíneu og Edmonton í Kanada. Borgirnar eru eins ólíkar og þær eru margar og umfang vandamálsins er ólíkt. Aftur á móti er markmiðið alls staðar hið sama, að útrýma ofbeldi með sértækum lausnum í hverri borg fyrir sig. Í því felst til dæmis breikkun gangstétta, aukin götulýsing og fjölgun öryggismyndavéla á götum. Ekki síst vekur verkefnið almenning til vitundar um kynbundið ofbeldi og mikilvægi þess að viðurkenna vandann, bregðast við honum og koma fólki, ekki síst karlmönnum, í skilning um grafalvarlegar afleiðingar kynbundins ofbeldis.

Hér á landi geta borgaryfirvöld aukið öryggi kvenna og stelpna með ódýrum en áhrifaríkum lausnum, líkt og markvissri þjálfun og fræðslu dyravarða á skemmtistöðum um hvernig bregðast eigi við ef kynbundið ofbeldi á sér stað á staðnum, bættri götulýsingu, endurnýjun og fjölgun öryggismyndavéla og á almenningssvæðum sem og auknum sýnileika lögreglu. Mikilvægast er þó að taka afstöðu gegn ofbeldi og hafa hugfast að við sem samfélag berum ábyrgðina – ekki mögulegir þolendur. Hættum að beita ofbeldi og stöndum vörð um öryggi samborgara okkar. Við getum ráðist í þessar aðgerðir strax í dag!

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×