Erlent

Van der Bellen sver embættiseið í dag

atli ísleifsson skrifar
Alexander van der Bellen, fyrrverandi leiðtogi austurrískra Græningja, sver í dag embættiseið sem forseti Austurríkis. Hann hafði betur gegn hægri popúlistanum Norbert Hofer í kosningunum sem fram fóru á síðasta ári.

Van der Bellen mun flytja innsetningarræðu sína eftir að hafa svarið embættiseiðinn. Að því loknu mun hann ganga að Hofburg-höllinni í Vínarborg til fundar við ríkisstjórn landsins.

Van der Bellen hlaut tæplega 54 prósent atkvæða í síðari umferð kosninganna sem fór fram 4. desember. Hofer hlaut um 46 prósent atkvæða.

Fyrri umferð forsetakosninganna fóru fram í Austurríki í apríl síðastliðinn, en sú síðari, sem fór fram í maí, var úrskurðuð ógild af hæstarétti landsins þar sem talið var að kosningalög hefðu verið brotin. Þá hafði Van der Bellen nauman sigur.

Embætti forseta Austurríkis er að stærstum hluta táknrænt og hefur sá sem því gegnir í raun svipað hlutverk og forseti Íslands.

Kosningarnar í Austurríki voru af mörgum stjórnmálaskýrendum taldar vera prófsteinn á fylgi þjóðernissinna í Evrópu enda byggði Hofer kosningabaráttu sína mikið á orðræðu sem snerist um að færa venjulegum Austurríkismönnum landið þeirra aftur og þar með úr greipum innflytjenda sem búa í landinu. Þá hafði hann einnig viðrað hugmyndir þess efnis að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Austurríkis í Evrópusambandinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×