Skoðun

Jafnrétti og vinnumarkaður

Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar

Ég fylgist spenntur með aðgerðum ráðherra jafnréttis- og vinnumála í ljósi þátttöku hans í umræðum á þörf um styrkingu fæðingarorlofssjóðs þegar hann var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Málið er mikilvægt og gæti orðið djásn ríkisstjórnarinnar.



Þörfin á styrkingu foreldrahlutverksins er öllum ljós. Íslenskir foreldrar leggja vinnumarkaðnum til fleiri vinnustundir samtals en í samanburðarlöndum og veldur það óhjákvæmilega ójafnvægi í fjölskyldum, vinnumarkaði og velferðarkerfinu. Nú þegar vel árar hjá fyrirtækjum er lag að koma þessari grunnstyrkingu fjölskyldna í viðeigandi farveg. Fjármögnun yrði einföld. Tryggingagjaldið lækkar ekki og hluti af greiðslum færi í að styrkja fæðingarorlofssjóð.



Nú þurfa fyrirtæki að standa með mikilvægasta starfsfólkinu sínu og styðja ráðherrann í þessu framfaraskrefi. Með þessari einföldu breytingu má lengja fæðingarorlofið í 15 mánuði strax. Greiðslur þurfa að nema sömu krónutölu og laun hjá foreldrum með meðallaun og lægri. Jafnréttisfræðsla þarf að birtast og auka stuðning á mikilvægustu ævidögunum frá getnaði til 2 ára aldurs barnsins. Lengja orlofið um 3 mánuði á ári næstu 3 ár þar til átján mánaða orlofinu er náð.



Árangurinn sem næst með þessari aðgerð er mun varanlegri heldur en stofnanainngrip, sem standa yfirleitt í stuttan tíma og koma til alltof seint, þegar óafturkræfur skaði hefur orðið. Jákvæðu áhrifin munu birtast í heilbrigðari fjölskyldum, starfsfólki í betra jafnvægi sem þýðir betri afköst. Einnig munu starfsskilyrði í menntakerfinu verða viðráðanlegri.

Alþingi hefur lengi verið ljós þörfin á fræðslu fyrir verðandi feður. Ákvæði um fræðslu fyrir verðandi feður hefur verið í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar frá árinu 1998. Í framkvæmdaáætluninni fyrir árin 1998-2001 sagði: 6.5. „Feðrafræðsla fyrir verðandi feður. Unnið verður að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á.“



Enn bólar ekkert á þessum stuðningi við íslenska feður. Karlmenn hafa litla sögulega hefð í uppeldi barna sinna og það er ekki sjálfgefið að allir læri fljótt og örugglega að ala upp börn. Við þurfum því að veita körlum tækifæri til að axla ábyrgð á uppeldi barna sinna strax í frumbernsku þeirra. Þetta hafa sérfræðingar bent á í tvo áratugi. Stuðningur við foreldra á mikilvægasta æviskeiði barnsins skilar sér allt að nífalt til baka samkvæmt Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Styrking fæðingarorlofssjóðs er einnig afar hagkvæm leið til að fyrirbyggja brottfall ungs fólks af vinnumarkaði sem náði nýjum hæðum með 22% fjölgun öryrkja árið 2016.

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×