Skoðun

Konur eru ekki súkkulaði!

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Ísland stendur fremst í jafnrétti í heimi en jafnrétti er engan veginn náð. Með núverandi þróun verður 12 ára dóttir mín þremur árum frá eftirlaunum þegar hún fær jafn mikið greitt fyrir vinnu sína og strákarnir. Hún mun hefja störf neðar í stiganum en jafnaldrar hennar með utanáliggjandi kynfæri og þrátt fyrir jafn góða menntun og hæfni, og þó hún taki ekki meiri tíma frá störfum vegna barna en þeir, þá mun hún samt ekki vera jafngild á vinnumarkaði.

Þrátt fyrir þetta heyrast enn gagnrýnisraddir á sértækar aðgerðir til að ná fram jafnrétti; kynjakvóti í stjórnum sé fáránlegur, „við viljum bara velja hæfasta fólkið“. Er sem sagt ekki hægt að finna hæfar konur til að fylla 40% í stjórnum? Þetta er ekki illa meint. Það vill enginn ójafnrétti. Þetta er ómeðvitað og hugsunarleysi. Þetta er vani.

Nýr ráðherra Sjálfstæðisflokksins hitti naglann á höfuðið þegar sumir sögðu hana hafa fengið stöðuna því hún væri kona: „Ef ég er að fá ráðherrastól af því að ég er kona þá er miðaldra karlmaðurinn að fá stólinn af því að hann er miðaldra karlmaður.“ Vaninn ræður og karlarnir halda áfram að fá stólana. Þess vegna verðum við að handstýra breytingunni þangað til að hún verður „normið“ og þetta gerist sjálfkrafa. Við verðum að nota hamar á glerþakið.

Sem FKA-kona hef ég líka heyrt, „af hverju þarf sérstakar viðurkenningar fyrir konur í atvinnulífinu?“ – við erum einmitt að veita þær í dag. Jú, til þess að vekja athygli á því að við erum fullkomlega jafn hæfar og karlar, til að hvetja konur áfram, verðlauna fyrir vel unnin störf og sýna heiminum hvað í konum býr. Þetta er enn einn liður í því að gera okkur meðvituð.

Konur eru ekki súkkulaði. Við fáum ekki að vera með af meðaumkun. Við þurfum að fá að vera með til að geta sýnt hvað í okkur býr og skapa fyrirmyndir. Til að skapa nýtt „norm“. Og þegar allir eru farnir að gera sér grein fyrir því að svona á þetta að vera og hæfasta fólkið er valið, óháð kynfærunum, þá getum við tekið handstýringuna af. Þegar jafnrétti er orðið vani.

Pistillinn birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 








Skoðun

Sjá meira


×