Skoðun

Hin kæruglaða Landvernd

Halldór Kvaran skrifar
Framkvæmdastjóri Landverndar beinir því til nýrrar ríkisstjórnar að kanna „hvort og þá hvernig megi takmarka fjölda ferðamanna sem koma til Íslands á meðan tekist er á við helstu áskoranir ferðaþjónustunnar“. Ráðherrar hljóta að spyrja kontóristann á móti hvernig þeir kranar skuli líta út sem hann vill setja upp á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði og skrúfa frá eða fyrir eftir atvikum til að fjölga eða fækka ferðamönnum. Auðvitað er þetta þvæla eins og margt annað sem kemur úr þessari átt.

Í sömu grein í Fréttablaðinu, 18. janúar 2017, rekur framkvæmdastjórinn hnýflana í uppbyggingar­áform okkar hjá Fannborg ehf., félaginu sem annast ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum. Fram kemur að hann hefur komið sér upp skammar­frasanum „láglendis­væðingu hálendisins“ til tala niður starfsemi okkar og annarra sem reka ferðaþjónustu á hálendinu og þekkja best þarfir og óskir viðskiptavina og hvernig skuli uppfylla þær.

Við viljum einfaldlega skapa gestum okkar sómasamlegar aðstæður til að sofa, borða og fara á snyrtingu. Slíkum frumþörfum telur Landvernd að fólk eigi að sinna á láglendi, takk fyrir!

Landvernd reynir að bregða fyrir okkur fæti og eyðileggja áform um að reisa gistihús í Kerlingarfjöllum. Með framkvæmdinni er brugðist við eftirspurn og álagi sem fylgir fjölgun ferðamanna. Við færum ferðaþjónustuna í áföngum undir eitt þak í nýju húsi á tveimur hæðum og hverfum jafnframt frá rekstri smáhýsa. Þetta gerist á skipulögðu þjónustusvæði í þröngum dal í útjaðri Kerlingarfjalla og stuðlar að umhverfisvænni og öflugri, sjálfbærri starfsemi. Landvernd hefur sterkar skoðanir á útliti gistihússins en hefur ekki vikið að lykilatriðum á borð við kolefnisfótspor eða sjálfbærni í þráhyggjuatlögum sínum að áformum okkar og framkvæmdum. Rétt er samt að nefna að Landverndarmenn ráðlögðu okkur að byggja eitthvað sem líktist veiðihúsum í Afríku og kváðust geta réttlætt að víkja frá umhverfisviðmiðum ef hönnuð væru hús sem væru þeim að skapi!

Fannborg ehf. hóf framkvæmdir við fyrsta áfanga gistihúss í Ásgarði og fór í einu og öllu eftir lögum og reglum við undirbúninginn. Tilskilið var að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna í heild sinni þegar farið væri í næsta áfanga. Þannig úrskurðaði Skipulagsstofnun og vísaði til umsagna sex aðila af sjö þar sem ekki var talin þörf á mati á umhverfisáhrifum strax. Sá sjöundi vildi íhuga að meta umhverfisáhrifin strax við fyrsta áfanga. Til þeirrar umsagnar vísaði Landvernd í kæru sinni og kröfu um að framkvæmdir skyldu stöðvaðar og umhverfisáhrifin metin. Aðrar umsagnir skiptu samtökin ekki máli, þau tíndu bara þann mola úr boxinu sem hentaði þeim og bragðaðist best.

Hefði getað haft bein áhrif

Reyndar var það svo að við höfðum hafið undirbúning að mati á umhverfisáhrifum þegar Landvernd kærði og það vissu Landverndarmenn en kærðu samt. Í þessu ferli buðum við samtökunum að koma að málinu með því að fá upplýsingar og taka þátt í verkstýringu mats á umhverfisáhrifum. Þannig hefði Landvernd getað haft bein áhrif á umfang og eðli matsins. Nei, Landvernd hafnaði boðinu með þeim skýringum að þá myndu samtökin síður geta kært það sem þeim kynni að mislíka í verkefninu! Reyndar mátti skilja á formanni Landverndar í útvarpsviðtali á dögunum að kæruvaðallinn væri markmið í sjálfu sér. „Þannig reynum við að láta finna fyrir okkur“ og „stugga við kerfinu“, sagði hann orðrétt.

Aðstandendur ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum hafa háleit markmið í umhverfis- og landverndarmálum og framfylgja þeim ákveðið. Við lítum til þess með stolti að hafa á síðustu árum lagt um 2.000 dagsverk í umhverfistengd verkefni: slóðagerð, merkingu gönguleiða og viðhald. Þá höfum við hreinsað rusl meðfram Kjalvegi og fjarlægt girðingarleifar á Hrunamannaafrétti. Við leggjum metnað okkar í að ganga vel um landið og berum virðingu fyrir umhverfinu.

Við göngum hart fram gegn utanvegaakstri af öllu tagi, kærum alvarleg brot til lögreglu en veitum öðrum áminningu. Við undanskiljum engan í þeim efnum, ekki heldur framkvæmdastjóra Landverndar sem ók út fyrir veg á Kjalarsvæðinu sumarið 2016 í vettvangsferð vegna kærumála samtakanna í tilefni af framkvæmdum þar. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Aðfinnslu minni var vel tekið og hann sá að sér en þarna rifjaðist upp að óskiljanlegt andóf Landverndar gegn endurbótum á hálendisvegum getur við ákveðnar aðstæður leitt til þess að menn sjá sér hag í því að aka út fyrir vegslóðana og hugsa ekki um afleiðingarnar.

Það verður að segjast að öfgar, fúsk og ófagleg vinnubrögð hafa á síðari tímum einkennt framgöngu Landverndar í vaxandi mæli. Nýleg undirskriftasöfnun sýnir að meira að segja stuðningur eigin félagsmanna við framgöngu forystu samtakanna er takmarkaður. Ímynd Landverndar er verulega löskuð og fleiri og fleiri líta nú á hana sem öfgasamtök. Vonandi að breyting verði þar á og stjórn Landverndar endurstilli kompásinn.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×