Erlent

Bresk yfirvöld náða þúsundir samkynhneigðra karla

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ættingjar Alan Turing afhentu nær hálfa milljón undirskrifta árið 2015 þar sem kallað var eftir að mennirnir yrðu náðaðir.
Ættingjar Alan Turing afhentu nær hálfa milljón undirskrifta árið 2015 þar sem kallað var eftir að mennirnir yrðu náðaðir. Vísir/Getty
Þúsundir samkynhneigðra og tvíkynhneigðra karla voru í dag náðaðir af yfirvöldum í Bretlandi. Mennirnir voru sakfelldir fyrir blygðunarsemisbrot þegar samkynhneigð var enn ólögleg í Bretlandi.

Náðunin byggir á hinum svokölluðu Alan Turing lögum og verða um 49 þúsund menn náðaðir af glæpum sem þeir væru ekki fundnir sekir um í dag.

Alan Turing var einn þeirra sem tókst að ráða Enigma, dulmál Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni. Turing var dæmdur árið 1952 fyrir samkynhneigð og valdi að vera vanaður í stað þess að sitja í fangelsi. Stuttu seinna framdi Turing sjálfsvíg með því að borða epli sem hann hafði látið liggja í blásýru.

Turing var náðaður af breskum yfirvöldum árið 2013, nær 60 árum eftir að hann tók sitt eigið líf.

Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, gaf út formlega afsökunarbeiðni fyrir hönd yfirvalda árið 2009, fyrir þá meðferð sem Turing mátti þola. Í kjölfarið hóf fjölskylda hans herferð með það að markmiði að aðrir sem voru sakfelldir fyrir kynhneigð sína yrðu einnig náðaðir.

Sam Gyimah, ráðherra fangelsismála í Bretlandi, sagðist á Twitter síðu sinni vera ákaflega stoltur af því að Alan Turing lögin væru orðin að veruleika.

„Við getum aldrei afturkallað þann sársauka sem við höfum valdið, en við höfum beðist fyrirgefningar og gripið til aðgerða til að leiðrétta fyrri mistök,“ sagði Gyimah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×