Erlent

Neydd til að kreista mjólk úr brjósti sínu á flugvelli

Samúel Karl Ólason skrifar
„Ég fór að gráta og var mjög miklu uppnámi.“
„Ég fór að gráta og var mjög miklu uppnámi.“ Vísir/Getty
Tveggja barna móðir hefur lagt fram formlega kvörtun til lögreglu í Þýskalandi. Hún segist hafa verið neydd af lögregluþjóni til að kreista mjólk úr brjósti sínu. Gayathiri Bose var á leið frá Frankfurt til Parísar þegar hún var stöðvuð eftir að farangur hennar var settur í gegnum röntgenvél. Bose var með brjóstadælu í farangri sínum og vakti það furðu lögregluþjóna að hún var ekki að ferðast með barn.

Bose segir sjö mánaða barn hennar hafi verið í Singapore þar sem hún býr. Því hafi ekki verið trúað og að lögregluþjónar hafi heldur ekki trúað að brjóstadælan væri í raun brjóstadæla. Hún var því færð inn í þar til gert herbergi þar sem kvenkyns lögregluþjónn bað hana um að hneppa frá skyrtunni og sanna að hún væri með barn á brjósti.

Sem hún og gerði.

Bose segist hafa verið hrædd og í áfalli og hún hafi ekki áttað sig á þessu fyrr en eftir á.

„Ég fór að gráta og var mjög miklu uppnámi,“ segir hún við BBC. Enn fremur segir hún atvikið hafa verið niðurlægjandi og að hún íhugi að höfða mál vegna þess.

„Ég átta mig á nauðsyn þess að kanna hluti sem líta grunsamlega út, en að koma svona fram við manneskju er að fara yfir strikið.“

Talsmaður lögreglunnar á flugvellinum í Frankfurt segist ekki geta tjáð sig um málið en segir ljóst að aðferðirnar sem um er rætt séu „greinilega“ ekki hluti af hefðbundnu starfsferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×