Skoðun

Kúvending landbúnaðarráðherra

Arnar Árnason skrifar
Efsta mál á lista nýs landbúnaðarráðherra er að boða frumvarp um breytingu á búvörulögum í marsmánuði. Þar á að endurskoða undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga og úthlutun tollkvóta.

Þar er einnig kveðið á um tæknilegar lagfæringar vegna framkvæmda búvörusamninga. Þetta kemur afar spánskt fyrir sjónir þar sem hér virðist vera grynnkað ansi vel á hlutverki samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga, sem skipaður var í nóvember síðastliðnum í samræmi við ákvæði nýrra búvörulaga, sem og framkvæmdanefndar búvörusamninga sem á samkvæmt öllu að fara með lagfæringar vegna framkvæmda samninganna.

Sáttaferli í uppnámi

Við afgreiðslu búvörusamninga á Alþingi í september var aukið töluvert á boðaða endurskoðun sem ljúka á fyrir árið 2019. Lögð var áhersla á breiða samstöðu um starfsskilyrði í landbúnaði og því var myndaður samráðsvettvangur stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnulífs um landbúnaðarstefnuna.

Samráðshópurinn fékk nokkuð skýra starfslýsingu og átti meðal annars að skoða markmið samninganna, loftslags- og umhverfismál, upplýsingagjöf til neytenda, upprunamerkingar og síðast en ekki síst samkeppnismál og starfsumhverfi. Nokkur sátt var um hópinn og hlutverk hans og voru bundnar vonir um heildræna og málefnalega útkomu úr vinnu hans. Hópurinn átti að koma saman um miðjan janúar.

En í liðinni viku heyrast fregnir af því að fjórum fulltrúum hafi verið vikið úr nefndinni, að formanni meðtöldum án þess að fram hafi komið nokkrar ástæður fyrir þeim breytingum né hverjir tækju þar sæti í staðinn. Þá er óljóst hvenær hópurinn mun taka til starfa.

Samhliða fregnum af breytingum á samráðshópnum er ljóst að taka á veigamikið umfjöllunarefni samráðshópsins, samkeppnismálin, út fyrir sviga og leggja fram frumvarp um breytingar þar á, án þess að fjallað hafi verið efnislega um málið á áður samþykktum vettvangi.

Stöndum við áðurgerða samninga

Það er ekki hægt að leggja nógu mikla áherslu á það hve mikilvægt það er að við reynum eftir fremsta megni að skapa sátt um íslenskan landbúnað, líkt og lagt var upp með sem hlutverk samráðshópsins. Stórfelldar breytingar á núverandi starfsumhverfi bænda þarf að skoða vel og ljóst þarf að vera hvaða áhrif breytingarnar hafa til lengri tíma.

Slík vinna á að sjálfsögðu heima þar sem upphaflega var gert ráð fyrir – í endurskoðunarvinnu samráðshópsins.



Skoðun

Sjá meira


×