Skoðun

Nám metið að verðleikum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Háskóli Íslands býður upp á fjölbreytt nám í hugvísindum og er eini skólinn hér á landi sem býður upp á hugvísindanám á öllum háskólastigum. Á Hugvísindasviði eru fjórar deildir en hver og ein þessara deilda hefur mikla sérstöðu. Það er sérlega brýnt að viðhalda þessari sérstöðu og gæta þess að fjölbreytileiki námsins skerðist ekki.

Langvarandi undirfjármögnun Háskólans hefur og mun hafa áhrif á okkur öll en að óbreyttu getur Háskóli Íslands ekki staðið undir hlutverki sínu. Fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2017–2021 gerir ráð fyrir heildarútgjaldaaukningu til uppbyggingar ýmissa innviða samfélagsins en skilur háskólana algjörlega eftir. Íslenskir háskólar eru alvarlega undirfjármagnaðir og fá til að mynda um helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar annars staðar á Norðurlöndum. Þessu verður að breyta og auka verulega fjármagn til háskólanna á næstu árum.

60% nemenda við Háskóla Íslands stunda nám á Hugvísinda- eða Félagsvísindasviði sem gerir þessi svið að fjölmennustu námssviðunum. Þrátt fyrir það fær nám í hug- og félagsvísindum úthlutað minnsta fjármagninu úr ríkissjóði sem gerir það að ódýrasta háskólanáminu hérlendis. Þess má geta að nemendur í hugvísindanámi við Háskólann fá minni framfærslu frá ríkinu en nemendur í framhaldsskóla.

En af hverju er Hugvísindasvið svona tiltakanlega undirfjármagnað? Ástæðan er úrelt reiknilíkan ríkisins. Reiknilíkanið stýrir fjármagnsdreifingu innan Háskólans og reiknast Hugvísindasvið í lægsta flokki þar innan. Reiknilíkanið er gjörsamlega úrelt en til hefur staðið að ráðast í breytingar á því síðan 2007. Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að loksins eigi að endurskoða reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps og nú er því tækifærið til að koma hagsmunum hugvísindanema á framfæri og vera þrýstiafl fyrir betra og réttlátara reiknilíkani. Að námið okkar sé metið að verðleikum er veigamikið baráttumál.

Deildir innan Hugvísindasviðs hafa lagst niður vegna þess að ekki var hægt að halda þeim uppi sökum skorts á fjármagni. Þar sem framlög með hverjum nemanda í hugvísindum eru með eindæmum lág eru ákveðin viðmið um lágmarksfjölda nemenda í hverju námskeiði. Ef fáir nemendur eru skráðir í námskeið er það fellt niður eða breytt í lesnámskeið sem byggist á auknu sjálfsnámi með færri kennslustundum. Það er óviðunandi hjá ríkisreknum háskóla að þessi leið þurfi að vera farin.

Síðastliðið ár höfum við í Röskvu verið í meirihluta í sviðsráði Hugvísindasviðs. Höfum við unnið í góðu samstarfi við Vöku að fjölmörgum mikilvægum hagsmunamálum. Ber þar helst að nefna greinaskriftarátak þar sem við fengum til að mynda Elizu Reid og Vigdísi Finnbogadóttur til að skrifa um mikilvægi hugvísindanna. Einnig má nefna fundi með kennurum og stjórnendum þar sem málefnum nemenda var komið á framfæri og í farveg. Mikilvægt er að halda þessari góðu vinnu áfram.

Fjölbreytni er hornsteinn samfélagsins. Nám í hugvísindum ýtir undir fjölbreytileika, eflir dómgreind fólks og gagnrýna hugsun. Fólk á sviði hugvísinda hefur það mikilvæga hlutverk að móta skilning okkar á hugtökum og atburðum sem varða samfélagið. Í erfiðu árferði Háskóla Íslands er nauðsynlegt að standa vörð um hugvísindin, efla þau og meta þau að verðleikum. Nemendur þurfa að hafa öfluga rödd þegar kemur að þeirra hagsmunamálum og geta komið sinni skoðun á framfæri. 




Skoðun

Sjá meira


×