Innlent

Meiri snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands kallar á aukið fjármagn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Viðbragðsaðilar á vettvangi í fyrradag.
Viðbragðsaðilar á vettvangi í fyrradag. vísir/ernir
Veðurstofan þarf aukið fjármagn ef hún á að sinna frekara ofanflóðaeftirliti. Þetta segir sérfræðingur á snjóflóðavakt hjá Veður­stofunni.

Í kjölfar mannskæðra snjóflóða á Flateyri og Súðavík árið 1995 voru sett ný lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Var Veðurstofunni þá falið það hlutverk að halda uppi eftirliti með snjóflóðum. Komið var á fót snjóathugunarkerfi í sveitarfélögum þar sem snjóflóð ógna byggð.

„Þar eru snjóathugunarmenn sem safna gögnum um snjó í fjalllendi fyrir ofan sína þéttbýliskjarna og út frá því, og veðurspám, byggjum við okkar spár. Ofanflóðavaktin hefur verið okkar viðleitni til að miðla þeim gögnum,“ segir Auður Kjartansdóttir sérfræðingur á snjóflóðavakt Veðurstofunnar.

Einn maður lést þegar snjóflóð féll í Esjuhlíðum í fyrradag. Snjóflóð í hlíðum fjallsins eru tíð en ofanflóðavakt fyrir fjallið er ekki á heimasíðu Veðurstofunnar. Þar er að finna upplýsingar fyrir Vestfirði, Tröllaskaga og Austfirði auk almennrar spár fyrir landið.

„Það má færa rök fyrir því að þörf sé á að gera sérstaka spá fyrir suðvesturhornið samhliða aukinni útivist fólks í landshlutanum. Við höfum ekki fengið fjármagn til slíks og höfum enn ekki komið á fót kerfi til að gera slíkt,“ segir Auður.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×