Skoðun

Vegabætur og rafhleðsluvæðing á miðhálendinu

Páll Gíslason skrifar
Með breytingu á vegalögum á sínum tíma var fjórum þekktum hálendisvegum skipað í flokk svokallaðra stofnvega: Uxahryggjaleið, Kjalvegi, Sprengisandi og Fjallabaksleið nyrðri. Við þessa staðreynd er miðað í nýlega samþykktri landsskipulagsstefnu 2015-2026. Þar er þessara leiða getið sem stofnvega og ennfremur „að stofnvegir um miðhálendið skuli byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum. Miðað sé við að þeir geti verið opnir a.m.k. 4–6 mánuði á ári“. Auk þess kemur fram að hringvegurinn, sem einnig telst stofnvegur í vegakerfinu, liggi yfir hálendið á afmörkuðum köflum.

Undanfarin misseri hefur verið rætt talsvert um endurbætur vegakerfisins, bæði kerfisins í heild og afmarkaðra kafla þess svo sem á miðhálendinu. Hvati umræðunnar er oftar en ekki gríðarleg fjölgun ferðamanna á Íslandi. Öllum ætti að vera ljóst að álag vegakerfisins er langt umfram það sem menn sáu fyrir sér og reiknuðu með.

Forsendur hönnunar vega og framkvæmda í vegamálum voru ekki í samræmi við þann umferðarþunga sem orðinn er blákaldur veruleiki. Við þarf að bregðast og standa faglega að umbótum, endurnýjun og styrkingu vegakerfisins með ríkari áherslu á sjálfbærni og öryggi. Hálendisvegirnir verða hér alls ekki undanskildir og þar þarf að sjálfsögðu að líta líka til sjálfbærni og öryggis.

Umferðaröryggi í fyrirrúmi

Sumir segja sem svo að hálendisvegir eigi að „liggja í landinu“, sem ég skil á þann veg að vegslóðar skuli áfram að vera vegslóðar, skör lægri í landinu en næsta umhverfi þeirra. Þetta á víst að vera umhverfisvænt og náttúruvinsamlegt en þar er nú ekki allt sem sýnist. Með því að einfalda veglínur, taka af beygjur hér og þar og „rúnna af“ mishæðir minnka líkur á útafakstri og árekstrum á blindhæðum. Hér þarf auðvitað að hafa umferðaröryggi í fyrirrúmi með því að milda beygjur og mishæðir. Eftir sem áður liggur vegurinn auðvitað í landslaginu, hvar ætti hann annars að liggja?

Þá er það sjálfbærnin. Beygjur og krókar kalla á breytilegan hraða og þar með aukna eldsneytisbrennslu og meira dekkjaslit. Óeðlilega mikil eldsneytisnotkun og slit á dekkjum umfram hið eðlilega eykur efnamengun og stækkar kolefnisfótsporið. Vegamálastjóri nefndi einmitt þessi atriði nýlega í umræðu um hraðahindranir í þéttbýli. Ábending hans á enn betur við á hálendisslóðunum.

Knýjandi nútíðarmál

Ég vil ganga lengra og hraða löngu tímabærum framkvæmdum við stofnvegina fjóra á hálendinu. Jafnframt verði lagðir jarðstrengir við hlið hálendisveganna til að setja þar upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Þörf fyrir rafbílavæðingu á hálendinu er ekki framtíðarmál heldur knýjandi nútíðarmál.

Þetta væri stórt stökk til aukinnar sjálfbærni í ferðaþjónustunni, enda væri þá fyrst unnt að tala af skynsamlegu viti um aðgerðir til að minnka kolefnisfótsporið. Slíkt gerist með því að stuðla að og hvetja til þess að menn aki rafbílum. Um leið væri mögulegt að leggja gömlu hálendistrukkunum sem eru þurftafrekari á eldsneyti en nýrri hópferðabílar. Innan fárra ára verða hópferðabílar rafdrifnir að miklu eða öllu leyti. Er eftir einhverju að bíða?

Benda má á að stofnvegurinn um Kjöl hefur verið lagfærður að hluta á undanförnum áratugum. Hann var byggður upp að sunnan og norðan og stenst þar eðlilegar kröfur um umferðarmannvirki til síns brúks. Þar á milli er Kjalvegur niðurgrafinn á 50 km kafla og stendur ekki undir nafni sem stofnvegur.

Með því að ljúka framkvæmdum við Kjalveg og leggja rafstreng meðfram honum, tengdan bílahleðslustöðvum, verður ekki einungis dregið úr umhverfisáhrifum bílaumferðarinnar heldur er líka unnt að stórbæta farsímakerfið og útrýma „eyðum“ í því.

Enn má nefna að með rafstrengnum má tengja allt að 14 notendur við raforkukerfið, suma mikilvæga ferðaþjónusturekendur við Kjalveg. Þeir myndu þá hætta að brenna olíu eða gasi til lýsingar og upphitunar. Það væri landvernd bæði í orði og verki.








Skoðun

Sjá meira


×