Erlent

Öll atkvæði í hollensku þingkosningunum verða handtalin

atli ísleifsson skrifar
Augu manna munu sérstaklega beinast að gengi hægriöfgamannsins Geert Wilders og Frelsisflokks hans.
Augu manna munu sérstaklega beinast að gengi hægriöfgamannsins Geert Wilders og Frelsisflokks hans. Vísir/afp
Öll atkvæði sem greidd verða í hollensku þingkosningunum í næsta mánuði verða handtalin. Stjórnvöld í Hollandi segja ákvörðunina tekna til að útiloka að tölvuþrjótar geti haft áhrif á niðurstöðu kosninganna.

BBC greinir frá því að fréttir hafi borist af því að tölvubúnaður sem til stendur að nota við talningu sé ekki öruggur.

Leyniþjónustur hafa varað við að tölvuþrjótar kunni mögulega að beina sjónum sínum að og vilja hafa áhrif á kosningarnar sem fram fara í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi á árinu.

Mikið hefur verið rætt um að rússnesk yfirvöld hafi með tölvuárásum sínum haft áhrif á forsetakosninganar í Bandaríkjunum á síðasta ári. Rússlandsstjórn hefur neitað ásökununum.

Þingkosningar fara fram í Hollandi þann 15. mars næstkomandi þar sem sérstaklega verður litið til gengis hægriöfgamannsins Geert Wilders og Frelsisflokks hans. Skoðanakannanir benda til að flokkurinn verði stærstur á þingi og fái fleiri en 30 af þeim 150 þingsætum sem í boði eru.

Hollenski innanríkisráðherrann Ronald Plasterk segir að engin vafamál megi koma upp þegar komi að talningu atkvæða. Hann segir að úrslit kosninga ættu ekki að liggja síðar fyrir en áður, þrátt fyrir að notast verði við nýtt talningakerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×