Skoðun

Bjarni Ben stjórnmálasnillingur?

Sverrir Björnsson skrifar
Við sem erum ósammála Bjarna Ben í pólitík hljótum þó að viðurkenna að enginn er honum sleipari nú um stundir. Maðurinn hefur alla hljóma hins pólitíska tónstiga á valdi sínu, frá ljúfasta þyt yfir í gjallandi stríðslúðra.

Það er langt síðan við sáum Bjarna spila á allra fínustu strengina, er hann táraðist í sjónvarpssal og hélt þannig velli fyrir Hönnu Birnu. Hneykslismál sem myndu enda feril flestra stjórnmálamanna hrindast af honum eins og fitubrák af teflonpönnu; Milljarða afskriftir, einkavinavæðing og Panamaskjöl, ekkert skilur eftir blett á bláu jakkafötunum.

Í síðustu kosningum sáum við bálreiða Bjarna húðskamma fréttamenn í sjónvarpsumræðum fyrir að spyrja út í svik hans í stórmáli síðustu kosninga, ESB þjóðaratkvæðagreiðsluna. Augnabliki síðar var mjúki Bjarni mættur segjandi mildum rómi að nú væri einmitt kominn tími á að fátækir og sjúkir nytu góðærisins. Það breyttist þó strax á kosninganóttina þegar ljóst var að Lækjabrekku hrærigrauturinn náði ekki sínum vísa kosningasigri. Síðan fengum við að sjá brosmilda Bjarna á stuttermabolnum sjarmera Óttarr Proppé inn í einkavæðingar ríkisstjórnina. Það var reyndar létt verk því einn ekki síður klókur, Benedikt frændi, kom ríðandi í hlað með Óttar í taumi.

Nýjustu tóndæmin eru að ljúfi Bjarni telur mjög miður að stóru skýrslurnar tvær – sem hann stakk sjálfur undir stól – hafi ekki komið fram fyrr!? Þá setur hann í brýrnar og segir algjörlega fráleitt að það hefði haft áhrif á kosningarnar ef fólk hefði vitað að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi með skipulegum hætti efnuðu fólki leið til skattaundanskota með því að innleiða ekki CFC og að 86% af skuldaleiðréttingunni fór til ríkari helmings þjóðarinnar. Bjarni er rétti maðurinn á tímum sjálfvalins sannleika, háll sem áll og fréttafólk nær engu taki á honum.

Bestu kostir stjórnmálamanns eru þó heilindi og að fólk viti hvert erindi hans er. Bjarni Ben hefur aldrei minnist einu orði á raunverulegt erindi Sjálfstæðisflokksins: Að verja og efla auð og völd baklands síns.

Þá eru nú vinstriflokkarnir heiðarlegri, þeirra erindi liggur alveg ljóst fyrir:

Að verja og efla auð og völd baklands síns.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×