Skoðun

Um samræmt íslenskupróf í 9. bekk

Tryggvi Már Gunnarsson og Helga Birgisdóttir skrifar
Þriðjudaginn 7. mars sátu undirrituð yfir hópi 9. bekkinga á meðan þeir þreyttu samræmt próf í íslensku og fyrri hluta enskuprófsins. Þessa dags höfðum við beðið lengi og hlakkað mjög til að hann væri yfirstaðinn. Aðdragandi hans hefur verið taugatrekkjandi og einkennst meðal annars af óöryggi, spennu, leiða og vonbrigðum. Ástæður þessa eru ýmsar og verður nú tæpt á nokkrum þeirra.

 

Samræmt próf er nú lagt fyrir í fyrsta skipti í 9. bekk. Það er því um ákveðinn tilraunahóp að ræða og við fundum öll til léttis þegar ljóst var að samræmdu prófin væru könnunarpróf og þau kynnt sérstaklega sem slík. Rökstuðningurinn fyrir því af hverju prófin voru færð úr 10. bekk niður í þann 9. var meira að segja góður og gildur:

 

„Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst sú að gefa nemendum kost á að vita stöðu sína fyrir lokaár grunnskóla til þess að þeir hafi möguleika á að bæta árangur sinn áður en til útskriftar kemur.“

 

Í janúar á þessu ári var svo skjalfest að framhaldsskólum sé heimilt að „taka mið af fleiri gögnum en lokaeinkunnum úr grunnskóla […] eins og […] niðurstöður samræmdra prófa“. Þetta þýðir ekki annað en nemendur verða, sérstaklega ef þeir sækja um í vinsælum skólum, að senda inn niðurstöður sinna samræmdu prófa. Könnunarpróf eru allt í einu ekki lengur könnunarpróf og þar með féll úr gildi allur rökstuðningur fyrir því að færa „könnunarprófin“ niður í 9. bekk. Þetta skapaði mjög mikið óöryggi og streitu meðal nemenda, foreldra og kennara og upphófust umræður um það hvort fara ætti að kenna sérstaklega „fyrir samræmdu prófin“ eins og gert var hér áður fyrr.

 

Vangaveltur um það hvort kenna ætti eða ekki fyrir meint samræmd könnunarpróf vöktu upp fleiri spurningar, einkum og sér í lagi hvað ætti að kenna. Úr hverju verður eiginlega prófað? Verður sama próf fyrir 9. og 10. bekk? Verða þau mismunandi? Að hvaða leyti? Að hve miklu leyti? Eigum við að kenna 9. bekkingum námsefni 10. bekkjar? Megum við gera það? Ættum við að gera það? Ættu kennarar að stokka upp allar kennsluáætlanir, spýta í lófana og setja í samræmdan prófagír til að undirbúa börnin sem allra, allra best og mest?

 

Upplýsingar um efni til prófs og uppbyggingu samræmdra prófa bárust seint og illa. Vísbendingar, skemmtilega loðnar, birtust á vef Menntamálastofnunar. Sem dæmi má nefna að í bréfi til nemenda í 9. og 10. bekk, sem birtist á vef Menntamálastofnunar í lok janúar, segir að íslenskuprófið samanstandi af tveimur textum ásamt spurningum sem „reyna á lesskilning og vald á tungumálinu“. Svo stendur: „Spurningarnar í íslensku eru 60 talsins“. Okkur er ekki ljóst hvað felst í „valdi á tungumálinu“ en hitt getum við svarið fyrir að prófið sem börnin tóku í dag var ekki 60 spurningar heldur 49 (þær upplýsingar bárust, eftir því sem við best vitum, til grunnskóla í gær).

 

Einhverjar vísbendingar um mögulegt innihald og áhersluatriði samræmdra „könnunarprófa“ var að finna í sérstakri reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. Reglugerð þessi var í gildi þar til í gær, daginn fyrir próf, en þá tók ný reglugerð við. Í eldri reglugerðinni kemur fram að tilgangur prófanna sé meðal annars að athuga „að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð“. Í reglugerðinni sem tók gildi í gær er þetta orðað með svipuðum hætti en þar segir að prófunum sé ætlað að athuga „að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í við¬kom¬andi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð“. Þá segir jafnframt í reglugerðinni nýju að einkunnir skuli gefnar „í samræmi við matsviðmið aðalnámskrár grunnskóla“.

Allir grunnskólar starfa eftir gildandi aðalnámskrá og hvað unglingastigið varðar er þar að finna hæfniviðmið, sem eru nokkuð mörg, og matsviðmið, öllu færri, sem eiga við um 10. bekk. Ekki eru til hæfni- eða matsviðmið fyrir 8. eða 9. bekk, sem þó tekur samræmt próf í samræmi við aðalnámskrá. 9. bekkingar verða því að miða við hæfni- og matsviðmið sem eiga við um 10. bekk en þau viðmið eru ansi loðin. Það kemur því ekki á óvart að hver og einn skóli skuli útbúa eigin skólanámskrá, kennarar velji úr ákveðin markmið til að vinna að hverju sinni og jafnvel breyti þeim eða útfæri eftir því sem hentar nemendahópnum.. Ómögulegt er að segja til um hvaða hæfni- og/eða matsviðmið hafa verið í brennidepli hjá hverjum skóla fyrir sig nú í vetur.

Hæfniviðmið fyrir íslensku, þ.e.a.s. þá hæfni sem „hver einstaklingur skal búa yfir við lok […] 10 bekkjar“, skiptist í nokkra flokka en þeir eru A) talað mál, hlustun og áhorf (6 liðir), B) lestur og bókmenntir (10 liðir), C) ritun (7 liðir) og loks D) málfræði (9 liðir). Um er að ræða mjög umfangsmikla þekkingu og færni sem við teljum nær ómögulegt að prófa með krossaprófi. Það segir sig sjálft að ekki er hægt að prófa flokk A, þ.e. talað mál, hlustun og áhorf, í rafrænu krossaprófi. Sex liðir eru þá óhjákvæmilega dottnir út í samræmdu prófi sem á að athuga að hvaða marki „hæfniviðmiðum aðalnámskrár“ hafi verið náð.

Fyrir um það bil viku síðan bárust loks þær fréttir frá Menntamálastofnun að ákveðið hefði verið að sleppa ritun á samræmdu prófi. Ritun, í sjö liðum, er því annar grundvallarflokkur í hæfniviðmiðum aðalnámskrár sem ekki er metinn á samræmdu prófi. Tvennt stendur eftir: B) lestur og bókmenntir og svo D) málfræði. Í bókmenntahluta samræmda prófsins í dag var ekkert ljóð eða bundið mál en skýrt kemur fram í aðalnámskrá að nemendur eigi að geta „notað algeng hugtök í bragfræði í umfjöllun um bundið mál og óbundið, lesið og túlkað ljóð af ýmsum toga og frá ýmsum tímum“.

Það er ýmislegt á huldu varðandi samræmdu prófin en þó er á hreinu að krossaprófið sem 9. bekkingar tóku í dag kemur alls ekki til með að sýna hæfni þeirra íslensku í samræmi við það hvernig fagið, námsmat og kennsluaðferðir eru kynntar í aðalnámskrá grunnskóla, grundvallarriti allra þeirra sem starfa í eða í tengslum við grunnskóla og á að vera leiðarvísir í okkar starfi. Þetta einhæfa námsmat sýnir eingöngu hversu vel nemendur stóðu sig í lesskilningi, málfræði og málnotkun í prófi sem þeir áttu erfitt með að undirbúa sig fyrirog vissu nánast ekkert um innihald þess.

Við er stolt af krökkunum okkar fyrir það hvað þeir stóðu sig vel í dag og afskaplega ánægð með skólastjórnendur í Hagaskóla sem hefðu ekki getað staðið sig betur í undirbúningnum. Hins vegar getum við ekki annað en verið óánægð og vonsvikin með framkvæmd, undirbúning og upplýsingastreymi þeirra sem að prófunum stóðu og finnst það vanvirðing við nemendur að standa ekki betur að undirbúningi prófanna.




Skoðun

Sjá meira


×