Skoðun

Krónan borðar börnin sín

Lúðvík Börkur Jónsson skrifar
Gengisskráning krónunnar minnir á þá sturluðu tíma þegar krónan styrktist í kjölfar þess að ameríski herinn fór. Stór­alvarlegt mál í efnahagslegum skilningi og varanleg veiking á sambandi okkar við Bandaríkin. En heimur krónunnar var verndaður í framvirkum samningum, braski, bralli, vaxtamunarviðskiptum og almennri þenslu. Herinn og framtíðin mátti eiga sig.

Eftir 10 vikna sjómannaverkfall þar sem lítill gjaldeyrir var að skila sér fyrir sjávarafurðir – á daprasta árstíma ferðaþjónustunnar – styrkist krónan dag eftir dag. Styrking sem er jafn óskiljanleg og sú sem varð þegar herinn fór. Hvíslað er um mikla framvirka samninga og nýjar leiðir sem fundnar hafa verið í vaxtamunarviðskiptum. Greinilegt er að krónan er heillum horfin á nýjan leik í spákaupmennsku fárra. Allir veðja á áframhaldandi hækkun og velgengni ferðaþjónustunnar sem nú hefur tekið við hlutverki bankanna sem drifkraftur gengishækkunar.

Verðlagið í landinu er þegar orðið glórulaust. Kaffibollinn hér er seldur á máltíðarverði í Bretlandi. Vinnulaun á Íslandi eru að verða þau hæstu í Evrópu í annað sinn á tíu árum. Við erum að fórna samkeppnishæfni Íslands og setja alla aðra útflutningsstarfsemi hratt og örugglega á hausinn vegna þess að Ísland er í tísku. Að halda að nýfenginn túrismi á Íslandi sé óháður alþjóðlegri samkeppni og að hér geti verðlag tvöfaldast í evrum og dollurum á fáum árum án hrikalegra afleiðinga – er enn á ný gífurlegt ofmat á eigin ágæti, eða algjört ráðaleysi.

Krónan er að drepa þau útflutningsfyrirtæki landsins sem ekki byggjast á beinni auðlindanýtingu. Öll nýsköpunarfyrirtækin og sprotarnir – öll þróunin og markaðsvinnan – öll flóran. Veika krónan bjó þetta til en sterka krónan drepur þetta niður. Krónan íslenska og byltingar eiga það sameiginlegt að borða börnin sín.

Ætlar þing og ríkisstjórn að horfa á eða stjórna?

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×