Skoðun

Eðlisbreyting á fjármögnun heilbrigðisþjónustu?

Ólafur Ólafsson skrifar
Ef beiðni Klíníkurinnar í Ármúla um opnun á fimm daga legudeild verður samþykkt, stefnir í eðlisbreytingu á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar líkt og gerst hefur í Bretlandi. En þar hafa „almennir“ fjárfestar m.a. fjármagnað sjúkrahúsrekstur síðan 1991. Með þeirri breytingu jókst krafa um kostnaðaraðhald og hærri arðgreiðslur með þeim afleiðingum að gæðum heilbrigðisþjónustunnar í Bretlandi hrakaði svo um munaði. Því má spyrja hvort búast megi við að sömu kröfur komi fram meðal eigenda/fjárfesta Klíníkurinnar í Ármúla.

Gangi þessi þróun eftir er veruleg hætta á að einkasjúkrahús hér á landi verði fjármögnuð til að mynda með lánum frá erlendum aflands­félögum. Margt bendir til að vextir verði líkt og „Norðuráls vextir“ hér á landi. Hagnaður fyrirtækja verði lítill vegna vaxta og greiðslna afborgana lána til móðurfyrirtækja sem eru oft aflandsfélög í lágvaxtalöndum. Skattgreiðslur verða því í lágmarki.

Væntingar um gróða eru athafnahvetjandi meðal margra, en brýnt er að gróðalöngun meðal trúnaðarmanna almennings stjórni ekki alfarið.

Undanfarna áratugi hafa hér á landi tíðkast svokallaðir „verktakasamningar“ við sérfræðilækna sem eru vel viðráðanlegir og ógna ekki skipulagi heilbrigðisþjónustunnar, ef ákveðnum skilyrðum er framfylgt eins og að þjónustusamningar eru gerðir við ríkið, eftirlitsaðilar upplýstir og lengra ekki gengið með frjálsan rekstur eins og gerðist í Bretlandi.

Það er engin þörf á að breyta núverandi fyrirkomulagi einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Það sama er ekki hægt að segja um þróun heilbrigðisþjónustu í Bretlandi í kjölfar einkavæðingarinnar sem hófst upp úr 1991.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×