Lífið

Edda varð svo hrifin af Roller Derby að hún setti upp sólgleraugu í miðri útsendingu

Birgir Olgeirsson skrifar
Edda Andrésdóttir ásamt þeim Gabríelu Sif Beck og Salóme Petru Kolbeinsdóttur úr Ragnarökum.
Edda Andrésdóttir ásamt þeim Gabríelu Sif Beck og Salóme Petru Kolbeinsdóttur úr Ragnarökum. Vísir
Það var heldur betur líf og fjör í fréttasetti Stöðvar 2 í kvöld þar sem fréttamaðurinn Edda Andrésdóttir tók á móti þeim Night Fury og Mia Flawless úr eina Roller Derby-liði landsins Ragnarökum.

Night Fury og Mia Flawless eru keppnisnöfn þeirra Salóme Petru Kolbeinsdóttur og Gabríellu Sif Beck sem útskýrðu fyrir Eddu og áhorfendum hvaða Roller Derby, eða hjólaskautaat, er.

Innslagið má sjá hér fyrir neðan:

Í hjólaskautaati eru fimm liðsmenn í hverju liði inn á í einu. Allir keppendur eru búnir hjólaskautum en engir boltar eru með í leiknum heldur fást stig með því að hringa andstæðingana.

Mia Flawless og Night Fury.Vísir
Nafnið fengið úr einni af uppáhalds kvikmynd hennar

Gabríella sagði frá því að liðsmenn veldu keppnisnöfn sín úr dægurmenningu. Pulp Fiction er ein af uppáhaldskvikmyndum hennar og þar er að finna persónuna Mia Wallace, leikin af Uma Thurman. Hún ákvað þó að leika sér aðeins að nafninu og kalla sig Miu Flawless því hún vildi vera góð með sig á vellinum.

Hún sagði að í daglegu lífi vandi hún sig að vera ekki fyrir fólki en á vellinum er takmarkið að vera fyrir öðrum.

Salóme Petra sagðist hafa prófað margar íþróttir en ekki fundið sig almennilega í neinni þeirra. „Svo var mér bent á þetta og ég varð ástfangin af öllu, íþróttinni og samfélaginu og liðsmönnum. Ég gat verið meira ég sjálf, þarna var ég svo velkomin og leið ótrúlega vel,“ sagði Salóme.

Fann kærustu sína í Roller Derby

Edda spurði hvort hún hefði orðið bókstaflega ástfangin af liðsfélögunum en svo var ekki. Hins vegar var það Gabríella sem fann kærustuna sína í Roller Derby.

Edda var svo hrifin af búningum þeirra að hún bað þær um að setja upp hjálmana og góma og setti svo sjálf á sig sólgleraugu áður en hún hóf að lesa veðurfréttirnar.

Þess má geta að Ragnarök taka á móti kanadíska liðinu Los Coños í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi klukkan 17 á morgun. Nánari upplýsingar um leikinn má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×