Lífið

Tryggja sér réttinn á sex bókum Stefáns Mána og ráðist í gerð sjónvarpsþátta

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur.
Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur.
Mystery og Truenorth hafa tryggt sér réttinn á sex bókum eftir rithöfundinn Stefán Mána. Bækurnar eru Húsið, Svarti Galdur, Feigð og Grimmd ásamt tveimur óútgefnum bókum og er hugmyndin að útfæra þær allar í sjónvarpsseríu sem færi í framleiðslu árið 2019. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Truenorth.



„Við byrjum á því að framleiða eina þáttaröð, en planið er að gera fleiri en eina,“ segir Kristinn Þórðarson, hjá Truenorth, um samstarfið við Stefán Mána.

Framleiðendur þáttanna segjast vera himinlifandi yfir þessu umfangsmikla og spennandi verkefni en það eru þeir Davíð Óskar Ólafsson hjá Mystery Productions, Kristinn Þórðarson og Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth. 

Aðalpersóna bókanna er lögreglumaðurinn Hörður og leikaraval fyrir það hlutverk fer af stað í vor. 

Þó ætla framleiðendur þáttanna ekki að fylgja útlitslýsingum Stefáns Mána á Herði og þar af leiðandi koma mun fleiri leikarar til greina í hlutverk hans. 

„Við munum semsagt alltaf taka fyrir eina bók og gera eina seríu úr henni. Það þarf vissulega að skálda aðeins inn í bækurnar til að fita þáttaröðina.“

Kristinn segir að það sé möguleiki á því að gera sex þáttaraðir og jafnvel enn fleiri.

„Við höfum í raun leyfi til að gera enn fleiri þáttaraðir og nota þá karakterinn Hörð. Þá þyrftum við að fá inn handritshöfunda og annað slíkt. Okkur finnst persónan á bakvið Hörð mjög heillandi og þetta eru frábærar bækur frá Stefáni Mána.“

Kristinn segir að Truenorth sé nú þegar búið að ræða við erlend framleiðslufyrirtæki um að gerast meðframleiðendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×