Erlent

Rannsaka eiginkonu forsetaframbjóðandans Fillon

Kjartan Kjartansson skrifar
Fillon-hjónin, Penelope og Francois, sem sökuð eru um spillingu.
Fillon-hjónin, Penelope og Francois, sem sökuð eru um spillingu. Vísir/EPA
Formleg rannsókn á Penelope Fillon, eiginkonu forsetaframbjóðandans Francois Fillon, er hafin i Frakklandi. Eiginmaður hennar er sakaður um að hafa greitt fjölskyldu sinni hundruð þúsunda evra af opinberu fé fyrir störf sem hún vann ekki.

Penelope Fillon var yfirheyrð í dag en opinber rannsókn hófst á Francois fyrr í þessum mánuði, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fillon er sakaður um að hafa greitt spúsu sinni eins og hún væri aðstoðarmaður sinn á þingi. Hún er hins vegar sögð hafa unnið lítið sem ekkert fyrir fénu, hún hafi ekki haft aðgang að þinghúsinu, fáir vissu af því að hún væri á meðal starfsmanna Fillon og þá hefur verið bent á misvísandi upplýsingar í skráningu á vinnutíma.

Áður en ásakanirnar komu upp var Fillon talinn líklegastur til að vinna forsetakosningarnar í Frakklandi. Nú mælist hann hins vegar með minna fylgi en Emmenuel Macron, frambjóðandi miðjuaflanna, og Marine Le Pen, frambjóðandi hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar.

Fillon-hjónin neita bæði allri sök.


Tengdar fréttir

Kosningastjóri Fillon segir af sér

Patrick Stefanini hefur sagt af sér sem kosningastjóri Francois Fillon, forsetaframbjóðanda Repúblikana í Frakklandi.

Hefja formlega rannsókn á Fillon vegna gruns um spillingu

Franski forsetaframbjóðandinn Francois Fillon sætir nú formlegri rannsókn af hálfu franskra yfirvalda vegna gruns um spillingu en hann er sakaður um að hafa borgað meðlimum úr fjölskyldu sinni þúsundir evra fyrir störf sem þeir inntu aldrei af hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×