Lífið

Hármissirinn kveikjan að fyrirtækinu

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
"Ég hef misst hárið þrisvar sinnum vegna lyfjameðferðir og fannst óþægilegt að nota hárkollu.” MYND/GVA
"Ég hef misst hárið þrisvar sinnum vegna lyfjameðferðir og fannst óþægilegt að nota hárkollu.” MYND/GVA
Við Guðrún Hrund mælum okkur mót á kaffihúsi úti á Granda, steinsnar frá vinnustað hennar. Við setjumst út í sólina á verönd með fögru útsýni yfir höfnina og fylgjumst með bátunum vagga á mjúkum öldum. Guðrún Hrund hefur verið önnum kafin við að hanna og sauma fallegan höfuðfatnað undir merkinu mheadwear fyrir konur sem hafa misst hárið.

Guðrún Hrund er með vinnu­aðstöðu hjá Krínolín þar sem húfurnar eru til sölu en að hennar sögn finnst konum sem hafa misst hárið gott að hitta aðra sem hafa gengið í gegnum sömu reynslu og þær geta nýtt sér styrkinn frá Sjúkratryggingum til að kaupa mheadwear.

Hármissir upp á dag

Guðrún Hrund greindist fyrst með krabbamein í báðum brjóstum árið 2009 í reglubundinni skoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Fréttirnar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti, enda hafði hún ekki fundið nein merki um að eitthvað væri að. „Ég fór fyrst í fleygskurð og síðan í lyfja- og geislameðferð. Meðferðina þoldi ég vel en það var þvílíkt áfall að missa hárið. Eiginlega var það mesta áfallið, þótt ótrúlegt sé. Læknirinn sagði að hárið færi sextán dögum eftir að lyfjameðferðin byrjaði og það stóðst upp á dag. Það mátti enginn sjá skallann og ég ákvað að nota hárkollu, sem mér fannst þó óþægilegt.“ Að meðferð lokinni fékk Guðrún Hrund svart, krullað hár en var áður ljóshærð.

Guðrún Hrund tók þátt í HönnunarMars. Hún hannar hárbönd í fallegum litum sem henta fyrir konur, hvort sem þær eru með hár eða ekki. MYND/GVA
Hélt hún væri sloppin

Fimm árum síðar greindist Guðrún Hrund aftur með krabbamein og í þetta sinn í lífhimnunni. „Það var mikið sjokk. Oft er talað um fimm ár sem þann tíma sem þarf til að teljast læknaður. Mér fannst ég vera sloppin en þá kom þetta upp. Ég var búin að kvarta um einkenni en enginn kveikti á hvað gæti verið að. Loks voru teknar ítarlegar blóðprufur og þá kom í ljós hvað var að hrjá mig. Þá hafði ég sennilega verið með meinið í eitt til tvö ár án þess að vita það.“

Guðrún Hrund fór í uppskurð, meinið var tekið og hún fór í lyfjameðferð í annað sinn. „Þegar ég hugsa til baka leið mér auðvitað ekki vel en maður tekur bara því sem gerist hverju sinni, það er svo skrýtið. Ég þoldi meðferðina vel í bæði skiptin en ég tók líka allar töflur sem voru í boði, eins og ógleðilyf, en það hefur mikið að segja. Þegar hárið fór í þetta sinn var ég ekki eins viðkvæm fyrir skallanum og var berhöfðuð heima hjá mér. Barnabörnin fengu að leika sér með hárkolluna.“

Guðrún Hrund með börnum sínum, Hildi og Lárusi Gauta, á 50 ára afmælinu, skömmu eftir að hún kláraði fyrstu lyfjameðferðina árið 2010.
Með Angelina Jolie genið

Guðrún Hrund ákvað að fara í erfðafræðilega rannsókn og láta kanna hvort hún væri með svonefnt BRCA1 gen sem oft er kallað Angelina Jolie genið. „Lífhimnukrabbamein er náskylt eggjastokkakrabbameini. Mér datt í hug að láta athuga hvort þetta gæti verið genatengt því móðir mín lést úr eggjastokkakrabbameini aðeins 38 ára gömul. Það voru enn til lífsýni úr henni sem einnig voru rannsökuð. Niðurstöðurnar sýndu að við vorum báðar með þetta gen. Til allrar hamingju hefur læknavísindum fleygt fram og það koma sífellt ný og betri lyf á markaðinn.“

Ári eftir að Guðrún Hrund greinist í annað sinn tók krabbameinið sig upp enn á ný og í þetta sinn ólæknandi. Hún fór í þriðju lyfjameðferðina með tilheyrandi hármissi. „Þá ákvað ég að láta verða af því að hanna höfuðföt að mínum smekk. Ég fór á námskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð í fyrra þar sem ég gerði viðskiptaáætlun og það hjálpaði mér mikið við að koma mheadwear af stað.“

 

Guðrún Hrund og Hörður, sambýlismaður hennar rétt fyrir fyrstu meðferð og fyrsta hármissi.
Lítur á björtu hliðarnar

Meininu er haldið niðri með nýjum lyfjum sem eiga að halda Guðrúnu Hrund frá lyfjameðferð í tvö ár. „Hingað til hef ég svarað lyfjameðferð vel og ég er bjartsýn á framhaldið. Ég tek daglega lyf í töfluformi sem ég þoli vel og finn fyrir litlum aukaverkunum. Þessi meðferð hamlar mér alls ekki frá því sem mig langar að gera.“

Guðrún Hrund segist ekki hugsa mikið um að hún sé með ólæknandi sjúkdóm. „Ég er þannig gerð að það er eins og ég fái einhvern aukakraft. Ef ég hugsaði um þetta á hverjum degi myndi ég kannski detta niður í þunglyndi og svartsýni. Ég held að það væri ekki gott. Ég segi stundum að það kemur alltaf eitthvað gott út úr öllu. Ég hefði ekki stofnað mheadwear hefði ég ekki þessa reynslu að baki og mér finnst forréttindi að fá að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast.“

En skyldi þessi reynsla hafa breytt henni? „Já, svei mér þá. Í fyrsta lagi kann ég að meta að vera á lífi. Það er ekki sjálfgefið og ég er þakklát fyrir það. Nokkrar konur sem voru með mér í fyrstu meðferðinni eru látnar. Ég er líka þakklát fyrir hvað ég hef farið vel í gegnum þetta. Svo er ég ánægð með að hafa startað þessu fyrirtæki. Það er kannski klisja en ég reyni að njóta líðandi stundar og sleppi því að nöldra út af einhverju smáatriði sem skiptir engu máli. Það er líka nauðsynlegt að vera innan um skemmtilegt fólk. Ég er líka orðin meiri nagli en áður og það er fátt sem kemur mér á óvart. Ég vil alls ekki vorkenna mér yfir því að hafa lent í þessum veikindum. Slíkt getur hent alla. Það getur líka margt verra gerst.“

Nánar má skoða hönnun Guðrúnar Hrundar á facebook.

Guðrún Hrund á uppáhaldsstaðnum sínum innan um trén sem móðurafi hennar gróðursetti fyrir u.þ.b. 65 árum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×