Erlent

Stór sprengjuárás á markaði í Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn standa vörð í Parachinar.
Hermenn standa vörð í Parachinar. Vísir/AFP
Minnst 22 eru látnir og um 50 særðir eftir stóra sprengjuárás Talibana í Pakistan í nótt. Árásin var gerð á markað nærri mosku sjíta í Parachinar, skammt frá landamærum Afganistan. Talið er líklegt að fjöldi látinna muni hækka í dag.

Jamaat-ul-Ahrar, samtök Talibana í Pakistan, lýstu yfir ábyrgð á árásinni í skilboðum til AFP fréttaveitunnar.

Árásum hefur farið fjölgandi í landinu, en minnst 130 létu lífið í árásum í Pakistan í febrúar. Íslamska ríkið og Talíbanar hafa lýst yfir ábyrgð á flestum árásunum. Yfirvöld í Pakistan hafa staðið í ströngu gegn vígamönnum í um fimmtán ár og voru íbúar orðnir vongóðir um að nú færi að linna, eftir ,að virtist, árangursríkar aðgerðir hersins.

Fyrsta hryðjuverkaárás ársins var einnig framin í Parachinar þar sem 24 létu lífið í sprengjuárás á annan markað í borginni í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×