Erlent

Varnarmálaráðherra Bretlands kennir Rússum um dauða sýrlenskra borgara

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands, er ekki sáttur með Rússa.
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands, er ekki sáttur með Rússa. Vísir/EPA
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands, segir að Rússum sé um að kenna, „fyrir hvert og eitt einasta mannsfall meðal almennra borgara í Sýrlandi,“ í eiturvopnaárásinni sem gerð var í síðustu viku. Þetta kemur fram í skoðanapistli ráðherrans í Sunday Times.

Fallon segir að sem helsti stuðningsaðili og verndari sýrlenska stjórnarhersins, séu Rússar ábyrgir. Hann kallar eftir því að Vladimír Pútín, Rússlandsforseti hætti stuðning sínum við Assad og aðstoði vesturlönd við að koma á friði í landinu.

Ummæli Fallon koma í kjölfar fregna af því að Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands ákvað að hætta við fyrirhugaða heimsókn sína til Rússlands, vegna stuðnings Rússa við ríkisstjórn Bashar al-Assad.

„Á síðustu árum hafa þeir haft nóg af tækifærum til þess að beita sér til þess að stöðva þessa borgarastyrjöld. Rússar verða nú að beita sér til þess að koma þessari ríkisstjórn frá.“

Þá segir Fallon jafnframt að einhver sem beiti tunnusprengjum og eiturefnavopnum gagnvart þjóð sinni geti aldrei orðið framtíðarleiðtogi þeirrar þjóðar.

Ákvörðun breska utanríkisráðherrans um að sækja Rússland ekki heim hefur verið harðlega gagnrýnd bæði af Rússum en einnig af öðrum stjórnmálamönnum í Bretlandi.

Talsmaður Skoska þjóðarflokksins í utanríkismálum, Alex Salmond, hefur til að mynda bent á að utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, ætli sér að heimsækja Rússland á næstu dögum og að ekki hafi verið hætt við þá heimsókn.

„Hver eru rökin fyrir því að heimsækja ekki Rússland? Rex Tillerson fer á miðvikudag. Er utanríkisráðherranum ekki treystandi, vegna þess að hann gæti verið á annarri línu en Bandaríkjamenn?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×