Erlent

Lögregla stöðvaði barnabrúðkaup á Ítalíu

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Mannréttindasamtökin Amnesty International  vekja athygli á barnabrúðkaupum í Róm.
Mannréttindasamtökin Amnesty International vekja athygli á barnabrúðkaupum í Róm. vísir/getty
Lögreglan í Tórínó stöðvaði brúðkaup fimmtán ára stúlku og tuttugu og fimm ára gamals manns eftir að hafa borist ábending frá barnaverndaryfirvöldum. La Repubblica greinir frá.

Stúlkan, sem er af egypskum uppruna, lét sjálf vita af hinum yfirvofandi ráðahag en hún hringdi í 114, neyðarnúmer fyrir börn, þremur dögum fyrir athöfnina. Hún sagði að hjónavígslan væri hugmynd foreldra sinna.

„Þau vildu að ég gengi að eiga mann sem er tíu árum eldri en ég. Ég er bara fimmtán ára. Ég vil þetta ekki og ég elska hann ekki,“ sagði stúlkan í símtalinu við neyðarlínuna.

Hún bætti við að móðir sín hyggðist taka hana úr skóla eftir brúðkaupið enda teldi hún að menntun væri óþörf fyrir húsfreyjur. Að auki stæði líklegast til að senda stúlkuna til Egyptalands til þess að búa með tengdafjölskyldunni.

Stúlkan sagði í samtali við lögregluna að hún hafi reynt ýmislegt til þess að mótmæla ráðahagnum. Hún sagðist meira að segja hafa reynt sjálfsvíg í bræðiskasti.

La Repubblica náði tali af móður stúlkunnar sem sagði að um ýkjur væri að ræða og að hún hefði ekkert á móti menntun kvenna. 

Samkvæmt ítölskum lögum þurfa einstaklingar að vera átján ára eða eldri til þess að ganga í hjúskap. Hægt er að fá undantekningu frá þessum reglum en til þess þurfa hjónaefni að vera orðin sextán ára og samþykki þeirra sjálfra og foreldra þeirra þarf að liggja fyrir.

Barnabrúðkaup eru enn algeng í heiminum í dag en mannréttindasamtökin Amnesty International áætla að um þrettán og hálf milljón stúlkna undir átján ára aldri gangi í hjónaband með sér eldri mönnum á ári hverju. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×