Erlent

Liðsmenn ETA afhenda vopn sín á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Sérstök athöfn er fyrirhuguð í frönsku borginni Bayonne sunnarlega á vesturströnd Frakklands á morgun.
Sérstök athöfn er fyrirhuguð í frönsku borginni Bayonne sunnarlega á vesturströnd Frakklands á morgun. Vísir/AFP
Liðsmenn basknesku aðskilnaðarhreyfinginnar ETA munu afhenda vopn sín frönskum yfirvöldum í borginni Bayonne á morgun.

Í bréfi sem ETA dreifði í gegnum breska ríkisútvarpið BBC kemur fram að hreyfingin muni að fullu afvopnast á morgun, 8. apríl. Þó kemur fram í stuttu bréfinu að „óvinir friðarins“ gæru enn stöðvað ferlið.

ETA hefur barist fyrir sjálfstæði Baskalands um áratuga skeið, en lýsti yfir einhliða vopnahléi árið 2011. Yfirvöld á Spáni og Frakklandi höfðu þá lengi barist gegn og þrýst á samtökin að leggja niður vopn.

Hreyfingin hefur staðið fyrir mannránum og sprengjuárásum í nærri hálfa öld og borið ábyrgð á dauða um átta hundruð manna – sér í lagi spænskum lögreglumönnum, hermönnum og stjórnmálamönnum.

Spænsk yfirvöld hafa margoft bannað stjórnmálahreyfingar á vegum liðsmanna ETA, en þær hafa alltaf blossað upp á ný undir nýju nafni. Í sumum sveitarfélögum í spænskum hluta Baskalands hefur slíkum hreyfingum tekist að ná allt að fjórðungs fylgi.

Í bréfinu er hvergi minnst á þá staðreynd að liðsmenn ETA hafi myrt á níunda hundrað manna í áratugalangri baráttu sinni.

Spænsk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um bréf ETA og fyrirætlanir hreyfingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×