Erlent

Ung stúlka ólst upp meðal apa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Getty
Indversk lögregluyfirvöld reyna nú af öllum mætti að bera kennsl á unga stúlku sem fannst á vappi í skógi í Uttar Pradesh héraði í janúar, meðal hóps apa. Guardian greinir frá.

Stúlkan er talin vera 10 til 12 ára gömul og fannst hún nakin, auk þess sem hún gat ekki mælt mannamál. Farið var með stúlkuna rakleiðis á spítala.

Lögreglumaðurinn sem hana fann varð að berjast við apana til þess að ná til hennar og þegar honum tókst að ná stúlkunni, eltu aparnir hann uppi, þar til hann komst í örugga fjarlægð í bíl sínum.

Þegar komið var á spítalann hegðaði stúlkan sér líkt og dýr, gekk á fjórum fótum og borðaði máltíðir sínar upp af gólfinu.

Eftir nokkurra mánaða aðlögun við mannlegt samfélag gengur hún nú á tveimur fótum en hefur enn ekki tekist að tala. Hún skilur þó þegar við hana er talað og brosir jafnvel.

Lögreglan rær nú öllum árum að því að komast að uppruna stúlkunnar, finna foreldra hennar og komast að því með hvaða hætti hún komst í skóginn.

Hún verður send á heimili fyrir ungmenni, þar til tekist hefur að bera kennsl á hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×