Erlent

Hafa fundið ummerki um súrefni á plánetu sem er á stærð við Jörðina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty
Stjörnufræðingar hafa fundið vísbendingar um að súrefni sé að finna í lofthjúpi plánetu á stærð við Jörð en andrúmsloftið er afar rakt vegna þess að afar heitt er á plánetunni. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, segir að um áhugaverða uppgötvun sé að ræða, þar sem þetta færir vísindamenn skrefi nær því að finna líf annars staðar í vetrarbrautinni.

Plánetan, sem ber nafnið GJ 1132b, er á sporbaug um rauðan dverg og er yfirborð plánetunnar hrjóstugt. Hún fannst fyrst árið 2015 en ekki var talið víst, fyrr en nú, að súrefni væri að finna á plánetunni.

Vísbendingar benda til þess að lofthjúpur plánetunnar sé afar rakur, en hitastig á yfirborði plánetunnar er nálægt 250 gráðum á celsíus. Plánetan er rúmlega 16 prósentum stærri en Jörðin og er á sporbaug of nærri stjörnu sinni til þess að geta talist lífvænleg.

Í samtali við Vísi segir Sævar Helgi að umrædd uppgötvun sé afar áhugaverð og mikilvægur hlekkur í því að finna vísbendingar um líf annars staðar í veröldinni. 

„Lykillinn að því að leita að lífi annars staðar á vetrarbrautinni er einmitt að rannsaka lofthjúpana, því þar geta leynst fingraför lífsins, líkt og umrædd vatnsgufa.“

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn mæla lofthjúp, en þetta er í fyrsta skipti sem menn mæla lofthjúp plánetu á stærð við jörðina.“

Sævar segir að uppgötvanir líkt og þessar verði æ algengari enda sé um að ræða heitasta viðfangsefni stjarnvísindanna í dag. Að sama skapi sé auðveldara fyrir nútímatækni að finna viðkomandi stjörnur, sem séu minni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×