Erlent

Forskot Macron á aðra minnkar lítillega

Atli Ísleifsson skrifar
Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. Vísir/AFP
Staða franska forsetaframbjóðandans Emmanuel Macron er enn sterk þrátt fyrir að nýjustu skoðanakannanir benda til að forskot hans á helstu andstæðinga hafi minnkað eftir sjónvarpskappræðurnar fyrr í vikunni.

Fyrrverandi efnahagsmálaráðherrann fengi samkvæmt könnun Harris 25 prósent atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fara 23. apríl, en Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar 24 prósent.

Fylgi bæði Macron og Le Pen hefur minnkað um prósentustig frá síðustu könnun sem gerð var 23. mars síðastliðinn, en allt bendir þó enn til þess að þau munu mætast í síðari umferð kosninganna sem fram fara þann 7. maí.

Kannanir benda til að í síðari umferðinni myndi Macron hljóta 62 prósent fylgi og Le Pen 38 prósent. Fyrir tveimur vikum mældist fylgi Macron 65 prósent gegn 35 prósent Le Pen.

Skoðanakönnun Harris var að hluta gerð eftir sjónvarpskappræður þriðjudagsins þar sem ellefu frambjóðendur tóku þátt. Kappræðurnar stóðu í fjóra tíma og voru þær fyrstu þar sem allir ellefu frambjóðendurnir mættust.

Fylgi vinstrimannsins Jean-Luc Mélenchon mælist nú sautján prósent en hann þótti standa sig einna best í kappræðunum. Fylgi Repúblikanans François Fillon mælist átján prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×