Erlent

Sex ISIS-liðar handteknir í Rússlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fjöldi minntist fórnarlamba lestarárásarinnar fyrr í vikunni. Ólíklegt er þó að mennirnir tengist árásinni.
Fjöldi minntist fórnarlamba lestarárásarinnar fyrr í vikunni. Ólíklegt er þó að mennirnir tengist árásinni. Nordicphotos/AFP
Sex liðsmenn, grunaðir um að reyna að lokka Rússa til liðs við Íslamska ríkið, voru handteknir í Sankti Pétursborg í gær. Þeir eru einnig grunaðir um að hafa hjálpað hryðjuverkamönnum. Rússneskir miðlar greindu frá þessu í gær.

Lesefni fyrir hryðjuverkamenn fannst í húsnæði sexmenninganna. Hinir grunuðu eru frá Mið-Asíulöndum og hafa verið virkir frá því í nóvember. ISIS hefur áður fengið til liðs við sig ýmsa öfgamenn frá Mið-Asíuríkjum.

Ekki er talið að þeir tengist Kirgisanum Akbarzhon Jalilov sem grunaður er um að hafa borið ábyrgð á árásinni á neðanjarðarlest í borginni í upphafi vikunnar.

Líkamsleifar Jalilovs fundust í lestinni og því mun árásin teljast sjálfsmorðsárás ef grunur rannsakenda reynist réttur. Fjórtán fórust í árásinni og fimmtíu særðust.

Enn sem komið er hafa engin hryðjuverkasamtök lýst yfir ábyrgð á árásinni. Að sögn BBC grunar rannsakendur þó að þar hafi Íslamska ríkið verið að verki. Jalilov hafi viljað hefna fyrir loftárásir Rússa á herbúðir Íslamska ríkisins í Sýrlandi og því ráðist á lestina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×