Erlent

Assange fagnar úrslitum forsetakosninganna í Ekvador

Anton Egilsson skrifar
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvador í London.
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvador í London. Vísir/AFP
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, fagnar úrslitum forsetakosninganna í Ekvador sem fram fóru í gær en þar var Lenin Moreno kjörinn nýr forseti landsins. The Guardian fjallar um þetta.

Ástæða fagnaðarins er sú að Gulliermo Lasso, sem varð að láta í minni pokann í kosningunum, hafði heitið því að láta vísa Assange úr sendiráði Ekvador í London, þar sem hann hefur haldið til síðan árið 2012, næði hann kjöri. Hinn nýkjörni forseti, Moreno, hafði hins vegar gefið það út að hann myndi leyfa Assange að halda kyrru fyrir í sendiráðinu.

Assange hefur haldið til í sendiráðinu til að forðast að vera framseldur til Svíþjóðar. Þar á hann yfir höfði sé ákærur fyrir kynferðisbrot, sem hann hefur ávallt neitað fyrir að hafa framið.

Skýtur á Lasso

Assange skaut föstum skotum að Lasso á Twitter síðu sinni í dag en í kosningabaráttu sinni hafði hann lofað því að láta fleygja Assange út úr sendiráðinu innan 30 daga frá því að hann tæki við völdum.

„Ég býð Lasso góðfúslega að yfirgefa Ekvador innan 30 daga (með eða án þeirra milljóna sem hann á í skattaskjólum,“ segir í færslu Assange en Lasso er umdeildur bankamaður í heimalandi sínu.

Assange stofnaði Wikileaks árið 2006. Samtökin birtu meðal annars leynileg gögn nafnlausra heimildarmanna. Samtökin urðu heimsfræg fyrir að birta gögn frá bandaríska hermanninum Bradley Manning, síðar Chelsea Manning, árið 2010.  

Hann hefur barist harðlega gegn því að vera framseldur frá Bretlandi til Svíþjóðar, því líklegast yrði hann framseldur þaðan til Bandaríkjanna. Þar gæti hann verið dæmdur til langrar fangelsisvistar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×