Erlent

Sjóræningjar rændu indversku fraktskipi

Samúel Karl Ólason skrifar
Franskir sjóliðar á ferð undan ströndum Sómalíu.
Franskir sjóliðar á ferð undan ströndum Sómalíu. Vísir/EPA
Sjóræningjar hafa rænt indversku fraktskipi undan ströndum Sómalíu. Þetta er annað slíka ránið eftir nokkurra ára hlé á aðgerðum sjóræningja á svæðinu. Reuters hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum sem segja ellefu manna áhöfn skipsins hafa verið tekna í gíslingu og að skipinu hafi verið siglt í átt að Sómalíu.

Skipið mun hafa verið á siglingu frá Bosasso til Dubai þegar því var rænt á laugardaginn.

Olíuskipi var rænt af sjóræningjum í síðasta mánuði og var það í fyrsta sinn sem slíkt kemur upp frá 2012. Ræningjarnir gáfust upp eftir skotbardaga við sjóliða frá Puntland-héraði í Sómalíu.

Nú í morgun sagði United Kingdom Marine Trade Operations, sem fylgjast með skipaumferð á svæðinu og beita sér gegn sjóránum, á heimasíðu sinni að sex bátum hefði verið siglt hratt að öðru skipi á svæðinu í morgun. Þeir hefðu verið með stiga og króka um borð, en flúðu þegar vopnaðir verðir sáust um borð í skipinu.

Sjómenn í Sómalíu hafa brugðist reiðir við veiðum erlendra skipa í landhelgi þeirra, en yfirvöld þar hafa veitt einhverjum veiðileyfi. Hins vegar hafa umfangsmiklar ólöglegar veiðar verið stundaðar við Sómalíu um langt skeið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×