Erlent

Úrslit forsetakosninga í Ekvador gætu ráðið örlögum Assange

Anton Egilsson skrifar
Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Íbúar í Ekvador ganga að kjörborðinu í dag og kjósa nýjan forseta landsins. Um forsetastólinn býtast þeir Guillermo Lasso og Lenin Moreno. Úrslit kosninganna gætu komið til með að hafa mikil áhrif á framtíð Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Assange hefur frá árinu 2012 haldið til í sendiráði Ekvador í London til að forðast að vera framseldur til Svíþjóðar. Þar á hann yfir höfði sé ákærur fyrir kynferðisbrot, sem hann hefur ávallt neitað fyrir að hafa framið.

Að því er fram kemur í frétt Sky hafa báðir forsetaframbjóðendur greint frá því í kosningabaráttu sinni hvernig þeir hyggist taka á veru Assange í sendiráðinu.

Verði Lasso kjörinn forseti hefur hann heitið því að Assange verði vísað úr sendiráðinu ekki seinna en 30 dögum eftir að hann tekur við völdum.

Moreno sem er bandamaður Rafael Correa, núverandi forseta Ekvador, ætlar hins vegar að veita Assange áframhaldandi skjól í sendiráðinu um ótiltekin tíma.

Julian Assange stofnaði Wikileaks árið 2006. Samtökin birtu meðal annars leynileg gögn nafnlausra heimildarmanna. Samtökin urðu heimsfræg fyrir að birta gögn frá bandaríska hermanninum Bradley Manning, síðar Chelsea Manning, árið 2010. 

Assange hefur barist ötullega gegn því að vera framseldur frá Bretlandi til Svíþjóðar, því líklegast yrði hann framseldur þaðan til Bandaríkjanna. Þar gæti hann verið dæmdur til langrar fangelsisvistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×