Erlent

14 ára drengur handtekinn vegna hópnauðgunarinnar á Facebook

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Facebook vildi ekki tjá sig um málið.
Facebook vildi ekki tjá sig um málið. vísir/getty
Lögreglan í Chicago hefur handtekið fjórtán ára gamlan dreng vegna hópnauðgunar á fimmtán ára stúlku sem sýnt var frá i beinni á samfélagsmiðlinum Facebook. BBC greinir frá.

Líklegt er að drengurinn verði ákærður fyrir að hafa framleitt og dreift barnaklámi.

Greint var frá hópnauðguninni í síðasta mánuði en lögreglan leitaði að fimm til sex manns sem grunaðir voru um að hafa nauðgað stúlkunni.

Myndbandið var líkt og áður sagði streymt beint á Facebook og er talið að tugir manna hafi séð það en enginn þeirra hafði þó samband við lögregluna.

Stúlkunnar hafði verið saknað í nokkra daga en lögreglumenn í Chicago fundu hana að daginn eftir að móðir hennar hafði nálgast lögreglustjórann í Chicago eftir blaðamannafund sem hann hélt og sýndi honum myndir af nauðguninni.

Fjölskylda stúlkunnar hefur verið flutt frá heimili sínu, öryggis þeirra vegna, en stúlkan, sem og fjölskyldan, hafa mátt þola hótanir og háðsglósur vegna málsins.


Tengdar fréttir

Sýndu beint frá hópnauðgun á Facebook

Lögreglan í Chicago leitar nú fimm til sex manna sem grunaðir eru um að hafa nauðgað 15 ára stúlku og sýnt beint frá nauðguninni á samfélagsmiðlinum Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×