Erlent

Ólíkar hugmyndir um framhaldið á Brexit

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, með bréfið frá Theresu May.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, með bréfið frá Theresu May. Vísir/AFP
Töluverður áherslumunur er á því hvernig þau Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sjá fyrir sér hvernig viðræðum um útgöngu Bretlands verði háttað.

Tusk birti í gær svar sitt við úrsagnarbréfi Bretlands, sem May sendi til hans á miðvikudag.

Við það tækifæri tók hann skýrt fram að ekki verði hægt að ræða framtíðarsamskipti Bretlands og Evrópusambandsins fyrr en viðræður um brotthvarf Bretlands verða langt komnar: „Það mun ekki gerast að samhliða viðræður hefjist.“

Þetta gengur þvert gegn því sem May sagði í bréfi sínu, og endurtók meira að segja nokkrum sinnum, að Bretar telji nauðsynlegt að gera samkomulag um framtíðarsamskipti við ESB samhliða viðræðum um útgöngu Bretlands úr ESB.

Ekki er þó víst að þessi ágreiningur skipti miklu í reynd þegar viðræðurnar komast á skrið.

Tusk tekur fram í bréfi sínu að í 50. grein Lissabonsáttmála ESB, sömu grein og inniheldur úrsagnarákvæðið sem Bretar hafa nú virkjað, segi að í viðræðum um skilmála útgöngunnar þurfi að taka mið af því hvernig fyrirkomulag verði haft á framtíðarsamskiptum við Breta.

Þetta verður þó ekki hægt, segir Tusk í bréfinu, fyrr en á seinni hluta útgönguviðræðnanna, þegar þær eru nokkuð langt á leið komnar.

Í bréfinu, sem Tusk sendi í gær til leiðtoga allra aðildarríkja Evrópusambandsins, segir hann einnig ekki koma til greina að Bretar eigi í viðræðum við einstök aðildarríki um framtíðarsamskipti við þau á meðan þeir eiga í viðræðum um útgönguskilmálana við ESB.

Þá er tekið skýrt fram í svari Tusks til Breta að Evrópusambandið muni ekki semja um framtíðarstöðu Gíbraltarskaga nema í fullu samráði við Spán. Gíbraltarskagi hefur lengi verið bitbein Bretlands og Spánar, en skaginn hefur heyrt undir breska lögsögu þótt hann sé syðst á Spáni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×